Stjórn og stjórnarhættir

Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Við fylgjum viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti og birtum árlega stjórnarháttayfirlýsingu sem fylgir ársskýrslunni.

Bankaráð Landsbankans

Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir. Bankaráð mótar almenna stefnu bankans og skal sjá til þess að skipulag og starfsemi bankans sé jafnan í réttu horfi. Bankaráð hefur einnig með höndum almennt eftirlit með rekstri bankans og tryggir að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Bankaráð er kjörið á aðalfundi til eins árs í senn og eru kjörnir sjö aðalmenn og tveir varamenn.

Fjórar undirnefndir starfa á vegum bankaráðs: Endurskoðunarnefnd, Áhættunefnd, Starfskjaranefnd og Framtíðarnefnd. Hlutverk nefndanna er m.a. að undirbúa umfjöllun bankaráðs á tilteknum starfssviðum og annast nánari athugun á málum sem þeim tengjast.

Nánari upplýsingar um bankaráð

Helga Björk Eiríksdóttir

formaður bankaráðs

Berglind Svavarsdóttir

varaformaður bankaráðs

Einar Þór Bjarnason

bankaráðsmaður

Guðbrandur Sigurðsson

bankaráðsmaður

Sigríður Benediktsdóttir

bankaráðsmaður

Þorvaldur Jacobsen

bankaráðsmaður

Varamenn í bankaráði eru Guðrún Ó. Blöndal (frá mars 2018) og Sigurður Jón Björnsson (frá apríl 2019).

Hersir Sigurgeirsson sagði sig úr bankaráði í nóvember 2020 þar sem hann hafði tekið að sér ný störf sem hann taldi ekki samrýmast setu í bankaráði.  

Framkvæmdastjórn

Í framkvæmdastjórn Landsbankans sitja bankastjóri og framkvæmdastjórar sviða bankans. Bankastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Bankastjóri skal sjá til þess að rekstur bankans sé samkvæmt lögum, reglugerðum, samþykktum og ákvörðunum bankaráðs. Hún skal sjá til þess að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.

Nánari upplýsingar um framkvæmdastjórn

Lilja Einarsdóttir

Lilja Björk Einarsdóttir

bankastjóri

Arinbjörn Ólafsson

framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs
Árni Þ. Þorbjörnsson

Árni Þór Þorbjörnsson

framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs

Helgi Teitur Helgason

framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs
Hrefna Ö. Sigfinnsdóttir

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir

framkvæmdastjóri Eignastýringar og miðlunar

Hreiðar Bjarnason

framkvæmdastjóri Fjármála og rekstrar
Perla Ö. Ásgeirsdóttir

Perla Ösp Ásgeirsdóttir

framkvæmdastjóri Áhættustýringar
Kristín Baldursdóttir

Kristín Baldursdóttir

innri endurskoðandi Landsbankans
Þórður Örlygsson

Þórður Örlygsson

regluvörður Landsbankans

Stjórnarháttayfirlýsing

Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti og birtir árlega stjórnarháttayfirlýsingu í ársskýrslu þar sem gerð er grein fyrir stjórnarháttum bankans og hvort þeir séu á hverjum tíma í samræmi við þær leiðbeiningar.

Stjórnvísi tilkynnti í ágúst 2020 um endurnýjun á viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrir­tækis í góðum stjórnarháttum fyrir tímabilið 2019-2020. Viðurkenningin byggir á úttekt ytri ráðgjafa á stjórnarháttum bankans sem fram fór í mars 2020.

Skipulag Landsbankans

Skipulag Landsbankans miðar að því að tryggja traustan og hagkvæman rekstur um leið og sköpuð eru tækifæri til árangursríkrar samvinnu deilda og hópa. Áhersla er lögð á að starfsfólk geti sinnt sameiginlegum verkefnum, þvert á svið og deildir bankans, og deilt og notið þekkingar hvers annars. Við störfum sem ein heild með hag og ánægju viðskiptavina að leiðarljósi. Á árinu voru gerðar breytingar á skipulagi bankans til að skerpa á hlutverkum hinna ólíku sviða bankans en hvetja um leið enn frekar til samvinnu. Liður í þeim breytingum var að efla eignastýringu og sviðið sem áður nefndist Markaðir nefnist nú Eignastýring og miðlun.

Einstaklingar

Einstaklingssvið annast alla þjónustu vegna fjármála einstaklinga, þ.m.t. þróun á stafrænum lausnum. Lögð er áhersla á að veita framúrskarandi þjónustu sem byggir á hagnýtingu gagna bankans og að viðskiptavinir geti jafnt fengið ráðgjöf og sinnt bankaerindum með stafrænum þjónustuleiðum sem í útibúum bankans. Þjónusta við minni og meðalstór fyrirtæki á landsbyggðinni er í höndum viðkomandi útibúa í náinni samvinnu við Fyrirtækjasvið.

Fyrirtæki

Þjónusta og fjármögnun fyrir fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir er í höndum Fyrirtækjasviðs. Við leggjum aukna áherslu á stafræna þjónustu, sér í lagi hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, auk aðgerða í sjálfsafgreiðslu. Sérhæfðir viðskiptastjórar annast þjónustu við fyrirtæki og lögaðila í öllum greinum íslensks atvinnulífs. Fyrirtækjaráðgjöf er hluti af Fyrirtækjasviði og veitir m.a. yfirgripsmikla og vandaða ráðgjöf um kaup, sölu og samruna fyrirtækja.

Eignastýring og miðlun

Eignastýring og miðlun býður efnameiri einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum aðstoð við að finna réttu lausnirnar þegar kemur að fjárfestingum og eignauppbyggingu. Boðið er upp á víðtæka þjónustu á sviði eignastýringar, bæði í formi einkabankaþjónustu og fagfjárfestaþjónustu, auk þjónustu sem snýr að sölu og miðlun verðbréfa, gjaldeyris og afleiðna fyrir fagfjárfesta og stærri viðskiptavini. Lögð er áhersla á persónulega þjónustu, ábyrga ráðgjöf og upplýstar ákvarðanir.

Fjármál og rekstur

Fjármögnun bankans, lausafjárstýring og viðskiptavakt er í höndum sviðs Fjármála og rekstrar. Uppgjör, bókhald og áætlanagerð heyra einnig undir sviðið, ásamt lána- og viðskiptaumsjón og rekstri eigna bankans. Rekstur á uppbyggingu nýrra höfuðstöðva bankans við Austurbakka tilheyrir þessu sviði.

Upplýsingatækni

Upplýsingatæknisvið ber ábyrgð á rekstri, öryggi og framför stafrænna innviða bankans. Starfsemin einkennist af þverfaglegu samstarfi og samvinnu við önnur svið bankans í því að veita og þróa framúrskarandi tæknilausnir og stafræna þjónustu. Rík áhersla er lögð á að efla hagnýtingu gagna við allt starf bankans og að tryggja að bankinn verði áfram leiðandi í hagnýtingu upplýsingatækni á íslenskum fjármálamarkaði.

Áhættustýring

Áhættustýring ber ábyrgð á virkni áhættustjórnunarumgjarðar samstæðunnar. Sviðið ber einnig ábyrgð á upplýsingagjöf um áhættustöður til mismunandi deilda og nefnda innan bankans og ytri eftirlitsaðila.

Fimm deildir starfa þvert á bankann

Þvert á bankann starfa auk þess fimm deildir sem heyra beint undir bankastjóra. Annars vegar Regluvarsla og Lögfræðiþjónusta og hins vegar Mannauður, Markaðs- og samskiptadeild og Hagfræðideild, sem starfa einnig undir samheitinu Samfélag. Samheitið Samfélag endurspeglar þá áherslu bankans að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og vinna deildirnar markvisst að því að finna nýjar og jákvæðar leiðir til samskipta og fræðslu, bæði innan bankans og við viðskiptavini.

Innri endurskoðun

Innri endurskoðun er sjálfstæð og óháð starfseining sem heyrir beint undir bankaráð. Hlutverk deildarinnar er að auka og vernda virði Landsbankans með áhættumiðaðri og hlutlægri staðfestingu, ráðgjöf og innsæi. Innri endurskoðun leggur mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum.

Skipurit Landsbankans

Skýr stefna um sölu eigna

Landsbankinn hefur sett sér skýra stefnu um sölu eigna og er henni ætlað að stuðla að gagnsæi og trúverðugleika við eignasölu og efla þannig traust til bankans. Hún leggur einnig grunn að vönduðum innri stjórnarháttum bankans um eignasölu og takmarkar rekstrar- og orðsporsáhættu sem sala eigna getur falið í sér. Sala eigna fer fram á viðskiptalegum forsendum þannig að sanngjarnt verð fáist fyrir eignirnar.

Eignir seldar á árinu 2020*

Á árinu 2020 seldi Landsbankinn 496 fullnustueignir, tvær bifreiðar, hluti í tveimur óskráðum félögum og 108 listmuni.** Heildarsöluverðmæti þessara eigna nam um 4.478 m.kr. Allar eignirnar voru seldar í opnu söluferli.

Eignir seldar 2020FjöldiSamtals söluverð
Íbúðir9350.100.000
Atvinnuhúsnæði150.000.000
Lóðir754.650.000
Jarðir1215.000.000
Sumarhúsalóðir2332.100.000
Bílar og tæki454447.626.929
Hlutir í óskráðum félögum23.285.210.000
Annað11143.613.200
Samtals6084.478.300.129
*Verðbréf og aðrir fjármálagerningar sem teknir hafa verið til viðskipta á markaði eru seldir á markaði og telst slík sala fela í sér opið söluferli. Slík viðskipti eru undanskilin í töflunni hér að ofan.

**Alls eru um 2.200 listmunir í eigu bankans, aðallega málverk, en einnig keramikgripir, eftirprentanir, ljósmyndir og fleira. Árið 2009 lét menntamálaráðuneytið gera listfræðilegt mat á listaverkasafni bankans. Lagt var til að verk í flokki I yrðu þjóðareign, verkum í flokki II yrði ekki ráðstafað án samráðs við Listasafn Íslands og verk í flokki III yrðu boðin að láni til menningarstofnana. Önnur verk féllu utan við matið og bankanum var frjálst að ráðstafa þeim án kvaða. Síðan hafa verk sem voru í eigu sparisjóða sem bankinn hefur sameinast bæst við safnið og hefur sambærilegt mat verið lagt á þau. Alls falla um 1.600 verk utan ofangreindra þriggja flokka og einungis verk utan þeirra hafa verið eða verða seld. Söluverðmæti verkanna sem voru seld á árinu 2020 var samtals um 5,6 milljónir króna, að teknu tilliti til sölulauna. Salan fór fram í opnu söluferli (netuppboð).

Eignir til sölu í árslok 2020

Alls voru 368 fullnustueignir bankans skráðar til sölu 31. desember 2020. Bókfært verðmæti þeirra var um 991 milljónir króna. Auk þess voru fjórar fasteignir, sem áður hýstu starfsemi bankans, til sölu um áramótin.

Í árslok 2020 voru eignarhlutir í ellefu óskráðum félögum í sölumeðferð. Eignarhlutirnir eru ýmist í eigu Landsbankans eða Hamla fyrirtækja ehf., dótturfélags bankans. Upplýsingar um eignarhlutina voru m.a. birtar á vef bankans.

Fullnustueignir í sölumeðferð í árslok 2020
Íbúðir 4
Atvinnuhúsnæði 1
Lóðir fyrir atvinnu og íbúðarhúsnæði 23
Sumarhúsalóðir 211
Jarðir 5
Bílar og tæki 124
Samtals 368

Öflugri varnir gegn peningaþvætti

Á árinu 2020 héldum við áfram að efla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Eftirlitskerfi bankans voru efld, ferlar styrktir enn frekar og haldið áfram að þróa stafrænar lausnir til að gera viðskiptavinum auðvelt að ljúka áreiðanleikakönnun.

Framkvæmt var áhættumat á starfsemi Landsbankans, viðskiptavinum, vörum og dreifileiðum sem starfsfólk hefur til hliðsjónar við eftirlit og ákvarðanatöku samhliða því að bankaráð samþykkti nýja stefnu um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Eftirlit með erlendum greiðslum var eflt á árinu 2020 í þeim tilgangi að draga frekar úr hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sviksemi, spillingu og mútum en Landsbankinn hefur sett sér stefnu gegn mútum og spillingu sem verið er að innleiða.

Á árinu 2020 var Ísland tekið af lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, yfir ríki sem hafa lýst yfir vilja til að framfylgja aðgerðaráætlun um úrbætur í málaflokknum. Áhrifin á starfsemi og þjónustu bankans voru takmörkuð sem skýrist af traustum viðskiptasamböndum Landsbankans við erlenda greiðslubanka og því hversu skamman tíma tók fyrir íslensk stjórnvöld að komast af listanum.

Áhersla á persónuvernd

Sem fyrr leggjum við áherslu á ábyrga og örugga meðferð persónuupplýsinga viðskiptavina, starfsmanna og annarra í starfsemi sinni í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og almennu persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins. Persónuverndarstefna bankans var uppfærð á árinu og við munum halda áfram að uppfæra og bæta verkferla, reglur og fræðslu á sviði persónuverndar, þ.m.t. í rafrænum lausnum og ávallt með réttindi viðskiptavina að leiðarljósi.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur