Fjölbreytt samstarf

Við tökum þátt í fjölbreyttum verkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Við styðjum margvísleg verkefni með fjárframlögum úr Samfélagssjóði, með stuðningi útibúa við verkefni í nærsamfélagi og með samstarfssamningum.

Frá afhendingu samfélagsstyrkja árið 2019. Vegna Covid-19 var ekki hægt að taka mynd af styrkþegum ársins 2020.

Samfélagssjóður

Samfélagssjóður Landsbankans gegnir lykilhlutverki í stuðningi okkar við samfélagið. Árið 2020 voru veittir námsstyrkir að upphæð sex milljónir króna og samfélagsstyrkir að upphæð fimmtán milljónir króna, alls 21 milljón króna. Frá árinu 2011 hafa samtals 384 verkefni fengið samfélagsstyrki úr Samfélagssjóðnum og nema styrkirnir samtals rúmlega 170 milljónum króna.

Lögð er áherslu á að stuðningur við samfélagið sé fjölbreyttur og að hann nýtist mörgum. Dómnefndirnar eru skipaðar fagfólki að meirihluta og við leggjum áherslu á að afgreiðsla styrkjanna sé skýr til þess að allir landsmenn hafi jafna möguleika og viðskiptavinir okkar á að sækja um styrki.

Hinsegin dagar

Við styðjum réttindabaráttu hinsegin fólks heils hugar en Landsbankinn hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík frá upphafi. Í samstarfi við Hinsegin daga stöndum við einnig fyrir Gleðigöngupottinum, sem styður einstaklinga og smærri hópa við undirbúning og framkvæmd atriða í Gleðigöngunni. Vegna hertra sóttvarnaraðgerða var flestum fræðslu- og skemmtiviðburðum í tengslum við  Hinsegin daga aflýst árið 2020, en margar litlar gleðigöngur voru gengnar í staðinn.

Samtökin '78

Undanfarin ár höfum við stutt Samtökin '78, samtök hinsegin fólks á Íslandi, en eitt af markmiðum samtakanna er að auka sýnileika hinsegin fólks og tryggja að það njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi. Þjónusta samtakanna er víðtæk og bjóða þau meðal annars upp á ráðgjöf og fræðslu.

Fjármálafræðsla

Við tökum þátt í fjármálafræðslu og eflingu fjármálalæsis, meðal annars með víðtækri umfjöllun og fræðslu um efnahag og fjármál á Umræðunni. Við leggjum áherslu á fjármálafræðslu í framhaldsskólum með það markmið fyrir augum að efla fjármálaskilning nemenda. Fræðsluheimsóknirnar standa öllum framhaldsskólum til boða og eru skipulagðar í samstarfi við fulltrúa þeirra.

Covid-19 setti svip sinn á fræðslustarfið árið 2020. Einungis var hægt að fara í átta fræðsluheimsóknir í fimm skóla á fyrstu mánuðum ársins. Þegar leið á árið fór fræðslan fram í gegnum fjarfundarbúnað. Alls fengu 551 nemendur fjármálafræðslu.

Við tökum einnig virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er námsefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin.

Forritarar framtíðarinnar

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Sjóðurinn styrkir skóla til að bjóða upp á forritunarkennslu fyrir nemendur, gefur skólum tölvubúnað og veitir ráðgjöf til menntunar og þjálfunar kennara í forritunarkennslu. Landsbankinn er einn af bakhjörlum sjóðsins.

Iceland Airwaves

Við erum stoltur bakhjarl tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves sem haldin var með afar óhefðbundnum hætti í ár vegna samkomutakmarkana. Undanfarin ár hefur Landsbankinn hitað upp fyrir hátíðina með því að framleiða ný myndbönd með efnilegu tónlistarfólki. Að þessu sinni unnum við með Jóa P og Króla, BSÍ, Sykur, Moses Hightower og gugusar. Myndböndin eru á Airwaves-vef Landsbankans. Stuðningur við ungt tónlistarfólk sameinar samfélagsábyrgð bankans og viðleitni til að veita listum og menningu í landinu virkan stuðning.

Gulleggið

Við erum styrktaraðili Gulleggsins sem er árleg frumkvöðlakeppni á vegum Icelandic Startups. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga við allt frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.

Lánatryggingasjóðurinn Svanni

Á árinu 2020 endurnýjuðum við samstarfssamning við Svanna, lánatryggingasjóð kvenna, til fjögurra ára. Svanni veitir lán með lánatryggingum til fyrirtækja í meirihlutaeigu kvenna og er ætlað að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar. Svanni hefur verið í samstarfi við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu um árabil.

Skólahreysti

Við erum aðalbakhjarl Skólahreysti og leggjum keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til þátttöku í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Keppnin var haldin í sextánda sinn í ár, með breyttu sniði vegna Covid-19. Um sextíu skólar luku keppni og stóð Lindaskóli uppi sem sigurvegari, eftir æsispennandi úrslitakeppni í Laugardalshöll.

Friðriksmótið í skák

Friðriksmót Landsbankans – Íslandsmótið í hraðskák – fór að þessu sinni fram á netinu og var háð í tveimur hlutum. Góð þátttaka var á mótinu og var þetta sautjánda árið í röð sem Landsbankinn og Skáksamband Íslands standa fyrir Friðriksmótinu í skák.

Knattspyrnusamband Íslands

Við erum bakhjarl Knattspyrnusambands Íslands. Ásamt fimm öðrum fyrirtækjum styrkir Landsbankinn uppbyggingarstarf íslenskrar knattspyrnu um land allt, öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna.

Íslenska kvennalandsliðið tryggði sér þátttökurétt í næstu úrslitakeppni EM sem fram fer sumarið 2022 í Englandi. Eftir góðan árangur í undankeppni á árinu mun Ísland einnig eiga lið í lokakeppni Evrópmóts U21 karla, sem fram fer á næsta ári í Slóveníu og Ungverjalandi.

Fyrir tveimur árum veittum við í fyrsta sinn Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ á mótum yngri flokka um allt land. Með veitingu verðlaunana viljum við hvetja til háttvísi og heiðarlegrar framkomu hjá leikmönnum og annarra er að mótunum koma.

Stuðningur við íþróttir og æskulýðsstarf

Við leggjum okkur fram við að styðja íslenskt íþróttalíf. Útibú bankans gera það með beinum samstarfssamningum við íþróttafélög víða um land. Í slíku samstarfi leggjum við áherslu á stuðning við barna- og unglingastarf.

Slysavarnafélagið Landsbjörg

Landsbankinn er einn af styrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Bankinn vill styðja öflugt slysavarna- og björgunarstarf um allt land. Slysavarnafélagið Landsbjörg er landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Í lok árs styrktum við aukalega björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði.

Rauði krossinn, Pieta og Mæðrastyrksnefnd

Í lok árs styrktum við Rauða krossinn og Pieta-samtökin í nafni Framúrskarandi fyrirtækja. Pieta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Einnig var ákveðið að styrkja gott málefni í stað þess að senda jólakort og varð fjölskylduaðstoð Mæðrastyrksnefndar fyrir valinu.

Menningarnótt

Við höfum verið virkur þátttakandi í Menningarnótt frá upphafi og erum bakhjarl hátíðarinnar. Við höfum lagt áherslu á að fjárstuðningurinn renni beint til listamanna og -hópa sem skipuleggja viðburði á Menningarnótt. Með sérstökum Menningarnæturpotti, sem við stöndum að í samvinnu við Höfuðborgarstofu, er frumlegum og sérstökum hugmyndum veitt brautargengi. Menningarnótt var því miður aflýst í ár vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

Aldrei fór ég suður

Við erum einn af aðalbakhjörlum rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem alla jafna er haldin á Ísafirði um hverja páska. Ekkert varð þó af hátíðinni í ár vegna Covid-19. Landsbankinn hefur stutt hátíðina allt frá árinu 2010 og með því viljum við leggja okkar af mörkum til að efla grasrótarstarf í íslenskri tónlist.

Klasasamstarf í ferðaþjónustu

Við höfum verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar.

Fjártækniklasinn

Við erum einn af stofnaðilum Fjártækniklasans ásamt 62 fyrirtækjum, háskólum, samtökum og fleiri aðilum. Fjártækniklasanum er ætlað að efla nýsköpun í fjármálum og gera viðskipti af öllu tagi auðveldari og betri. Hann er samfélag þeirra sem starfa við fjártækni og vilja stuðla að aukinni verðmætasköpun, samkeppni og bættum lífskjörum.

Íslenski sjávarklasinn

Við erum samstarfsaðili Íslenska sjávarklasans, en tilgangur hans er að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á nýtingu sjávar, með beinum eða óbeinum hætti. Íslenski sjávarklasinn hefur frá stofnun stuðlað að framþróun og nýsköpun í þeim greinum sem mynda klasann, í samstarfi við fyrirtæki og menntastofnanir, og stendur fyrir útgáfu greininga og rannsókna af ýmsu tagi.

Vigdísarstofnun

Við höfum áttum í góðu samstarfi við Vigdísarstofnun um árabil. Á árinu 2020 styrktum við afmælishátíð Vigdísar sem haldin var í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá sögulegu forsetakjöri Vigdísar Finnbogadóttur. Við tókum þátt í hvatningarátakinu „Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ og styrktum verðlaunasjóð sem veitir þeim sem skarað hafa fram úr í störfum í þágu tungumála viðurkenningu.

Háskólasjóður Eimskipafélagsins

14 doktorsnemar við Háskóla Íslands fengu styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands við úthlutun styrkja úr doktorssjóðum Háskóla Íslands á árinu 2020. Sjóðurinn er í umsjá Landsbankans. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við Háskóla Íslands.

Samtök um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF

Landsbankinn er einn af stofnaðilum IcelandSIF, samtaka um ábyrgar fjárfestingar, og er virkur þátttakandi í þeim. Samtökin er óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um sjálfbærar fjárfestingar.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur