Vinnum saman að sjálfbærni
Við viljum stuðla að sjálfbærni og vera hreyfiafl í íslensku samfélagi. Á árinu 2020 unnum við að sjálfbærnivegferð okkar af krafti. Það var ánægjulegt að fá framúrskarandi niðurstöður í UFS-áhættumötum á árinu, en þau lúta að því hvernig við vinnum að umhverfismálum, félagslegum málum og stjórnarháttum.
Sjálfbærnistefna
Sjálfbærnistefna okkar miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum við rekstur bankans.
Við ætlum að eiga frumkvæði að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samtök um þróun á atvinnuháttum og innviðum sem stuðla að aukinni sjálfbærni íslensks atvinnulífs og samfélags með það að markmiði að tækifæri Íslands í þessu sambandi verði nýtt með sem bestum hætti fyrir land og þjóð til framtíðar. Saman sköpum við ný viðskiptatækifæri með áherslu á sjálfbærni.
Heimsmarkmiðin hluti af stefnunni
Við fylgjum þremur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með markvissum hætti, markmiði 5 um jafnrétti kynjanna, markmiði 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu. Markmiðin tengjast öll starfsemi bankans og því getur vinnan að þeim hámarkað jákvæð áhrif hans á umhverfi og samfélag.
Landsbankinn fylgir einnig viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi (PRB) sem er ætlað að tengja bankastarfsemi við heimsmarkmið SÞ og Parísarsáttmálann.
Viðmið um ábyrga bankastarfsemi
Leiðandi í Evrópu og á Íslandi
Í nýju UFS-áhættumati (e. ESG rating) frá Sustainalytics árið 2020, vorum við í 2. sæti af 382 bönkum sem starfa í Evrópu og fyrirtækið mældi. Slíkt áhættumat tekur til þess hvernig fyrirtæki standa sig í þáttum sem lúta að umhverfismálum, félagslegum málum og stjórnarháttum (UFS-þáttum). Sustainalytics er alþjóðlegt mats- og greiningarfyrirtæki sem er leiðandi í mælingum á sjálfbærni. Úttektin er umfangsmikil og tekur til allrar starfsemi bankans. Lesa nánar
Í september fengum við sömuleiðis framúrskarandi einkunn í UFS-áhættumati Reitunar og var Landsbankinn metinn í A-flokki. Lesa nánar
Niðurstaða beggja áhættumatanna er ánægjuleg staðfesting á árangri mikillar vinnu innan bankans að sjálfbærni. Einnig er efnahagslegur ávinningur af góðu UFS-áhættumati, en það getur m.a. veitt bönkum greiðari aðgang að fjármagni.
Ný fjármálaumgjörð stuðlar að sjálfbærni
Á árinu 2020 unnum við að því að gefa út okkar fyrstu sjálfbæru fjármálaumgjörð (e. sustainable finance framework) sem birt var í janúar 2021. Hún eykur möguleika okkar á að fjármagna umhverfisvæn og félagsleg verkefni, s.s. orkuskipti, umhverfisvæna innviði og sjálfbæran sjávarútveg.
Umgjörðin er vottuð af alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics sem er leiðandi á þessu sviði. Hún skilgreinir með skýrum hætti hvaða verkefni stuðla að sjálfbærni og tryggir gagnsæi. Um 30% af útlánasafni bankans fellur nú þegar undir umgjörðina. Umgjörðin byggir á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (ICMA) og nýlegum viðmiðum Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy) um græna og félagslega fjármögnun, sem búist er við að verði ríkjandi viðmið á sjálfbærum fjármálamörkuðum. Umgjörðin var þróuð af þverfaglegum hópi sérfræðinga innan bankans. Lesa nánar
Þróun fyrsta loftslagsmælisins fyrir banka, PCAF
Við erum stolt af því að hafa tekið þátt í þróun fyrsta loftslagsmælisins fyrir banka, PCAF Standard, sem hleypt var á stokkunum í nóvember 2020. Árið 2019 hófum við þátttöku í alþjóðlega verkefninu Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Það miðaði að því að þróa sérsniðinn loftslagsmæli fyrir fjármálafyrirtæki sem er ætlað að gera bönkum kleift að mæla kolefnislosun verkefna sem þeir fjármagna eða fjárfesta í. Það hefur lengi verið ein helsta áskorun banka á vettvangi sjálfbærni að mæla umhverfis- og félagsleg áhrif bankastarfsemi í gegnum lána- og eignasöfn sín. Með loftslagsmælinum verður hægt að meta þessi óbeinu áhrif á markvissan og hnitmiðaðan hátt. Lesa nánar
Áfram kraftur í ábyrgum fjárfestingum
Á árinu 2020 héldum við markvisst áfram innleiðingu á stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Við höfum lengi lagt áherslu á þá vinnu og lítum svo á að það sé mjög mikilvægt að samþætta sjálfbærni við kjarnastarfsemi bankans.
Stefna okkar um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) sem við höfum verið aðili að frá árinu 2013. Auk þess erum við aðili að meginreglum SÞ um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB), sáttmála SÞ um sjálfbærni (UN Global Compact) og stofnaðili að IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi.
Stefnan okkar tekur bæði mið af því vinnulagi sem hefur mótast undanfarin ár og einnig þeim áskorunum sem framundan eru. Næsta skref er að bæta umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS-þáttum, e. ESG) með enn skipulagðari hætti inn í fjárfestingarferlið, hvort sem um óskráð eða skráð félög eða skuldabréf er að ræða. Einn angi af því verkefni er að tryggja óháð mat og hefur verið samið við Reitun varðandi innlenda útgefendur en Morningstar vegna erlendra útgefanda.
Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í sjálfbærni hefur áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri er metin, sem og vaxtarmöguleika fyrirtækja. Samþætting umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum hafa jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dregur úr rekstraráhættu. Starfshættir okkar varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum um þessi mál, þar sem neikvæðri skimun (útilokun) er beitt í undantekningartilvikum.
Sérfræðiþekking á sjálfbærum skuldabréfum
Við höfum byggt upp sérfræðiþekkingu á sjálfbærum skuldabréfum þar sem fjármagni er m.a. beint í umhverfisvæn og félagsleg verkefni. Við höfðum til að mynda umsjón með grænni skuldabréfaútgáfu Lánasjóðs sveitarfélaga sem lauk með vel heppnaðri útgáfu í febrúar 2020. Þá voru í fyrsta skipti hér á landi gefin út græn skuldabréf á betri kjörum en hefðbundin skuldabréf sem gefin voru út á sama tíma og er það til marks um góðan vilja fjárfesta til aðkomu að verkefnum sem stuðla að sjálfbærni.
Græn skuldabréf eru einn möguleiki til fjármögnunar á umhverfisvænum verkefnum og hefur áhugi á þeim aukist jafnt og þétt á undanförnum árum hér á landi, samfara stórauknum áhuga erlendis. Við höfum leitast við að byggja upp þekkingu á svokallaðri regnbogafjármögnun, sem er samheiti yfir græn skuldabréf, rauð skuldabréf (sem gefin eru út til að fjármagna félagsleg verkefni) og blá skuldabréf (sem er beint að verndun sjávar).
Umhverfismál
Ítarlega er fjallað um það sem snýr að umhverfismálum í starfsemi okkar í kaflanum Kolefnisspor.
Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum
Við ætlum að vera til fyrirmyndar í stjórnarháttum og fylgjum leiðbeinandi reglum Kauphallarinnar, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins þar um. Landsbankinn hefur verið fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum frá 2014 en viðurkenningin byggir á úttekt á stjórnarháttum bankans.
Mikil áhersla á netöryggismál
Netöryggismál er í brennidepli hjá okkur. Við lítum á víðtæka fræðslu um þau sem hluta af samfélagsábyrgð okkar. Við eigum í margvíslegu samstarfi við samtök og stofnanir sem beita sér á þessu sviði, bæði hérlendis og erlendis. Á árinu 2020 tóku sérfræðingar bankans virkan þátt í umræðu um málaflokkinn í fjölmiðlum, með fræðslu til fyrirtækja og aðgengilegu fræðsluefni sem birt var á Umræðunni og dreift á samfélagsmiðlum.
Ítarleg sjálfbærniskýrsla
Þetta er í 10. sinn sem við gefum út samfélagsskýrslu með ítarlegri umfjöllun um sjálfbærni og áhrif bankans á umhverfi og samfélag. Í ár sameinum við sjálfbærniskýrsluna og ársskýrslu bankans í fyrsta sinn. Við gerð skýrslunnar fylgjum við viðmiðum Global Reporting Initiative, meginatriðum (e. GRI Standards, Core) og gegnir hún einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact, hnattrænu samkomulagi Sameinuðu þjóðanna. Við munum áfram styðja við hnattræna samkomulagið og fylgja viðmiðum þess.
Samstarf á sviði sjálfbærni
Viljayfirlýsing um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Í nóvember 2020 skrifuðum við undir yfirlýsingu sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Festa, Landssamtök lífeyrissjóða (LL), og forsætisráðuneytið mótuðu í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.
Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð. Við vorum einn af stofnaðilum Festu árið 2011.
Hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna (United Nations Global Compact). Við höfum tekið þátt í hnattrænu samkomulagi SÞ frá árinu 2006.
Viðmið Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI)). Viðmið SÞ um ábyrgar fjárfestingar eru sett af samtökum fjárfesta, sjóðafyrirtækja og greinenda sem hafa það að markmiði að innleiða umhverfis- og samfélagssjónarmið, auk góðra stjórnarhátta, í ákvörðunartöku við fjárfestingar.
Fjármálaverkefni Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (United Nations Environment Programme Finance Initiative (UNEP-FI)). Við vorum einn af stofnaðilum fjármálaverkefnis Umhverfisstofnunar SÞ árið 1992.
IcelandSIF, samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Við vorum einn af stofnaðilum IcelandSIF árið 2017. Tilgangur samtakanna er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um þær.
Parísarsamkomulagið. Árið 2015 skrifuðum við undir yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum ásamt fjölda annarra íslenskra fyrirtækja og stofnana, í samstarfi við Reykjavíkurborg og Festu.
Viðmið um ábyrga bankastarfsemi (Principles for Responsible Banking (PRB)). Árið 2019 skuldbundum við okkur til að innleiða og fylgja viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi. Þeim er ætlað að tengja bankastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials). Við gerðumst aðili að alþjóðlega verkefninu PCAF árið 2019 og tókum þátt í að þróa loftslagsmæli sem er sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum og gerir þeim kleift að mæla og greina frá kolefnislosun í lána- og eignasafni sínu.
GRI Standards tilvísunartafla og fleiri fylgiskjöl
Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.