Helstu atriði ársreiknings
Rekstrarhagnaður Landsbankans eftir skatta nam 10,5 milljörðum króna á árinu 2020 samanborið við 18,2 milljarða króna á árinu 2019. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 4,3% á árinu 2020, samanborið við 7,5% arðsemi árið 2019.
Kennitölur | 31.12.2020 | 31.12.2019 |
---|---|---|
Hagnaður eftir skatta | 10.521 | 18.235 |
Hreinar rekstartekjur | 38.253 | 51.517 |
Hreinar vaxtatekjur | 38.074 | 39.670 |
Arðsemi eigin fjár fyrir skatta | 5,1% | 9,6% |
Arðsemi eigin fjár eftir skatta | 4,3% | 7,5% |
Eiginfjárhlutfall alls | 25,1% | 25,8% |
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna | 2,5% | 2,8% |
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) | 47,4% | 42,6% |
Heildarlausafjárþekja | 154% | 161% |
Lausafjárþekja erlendra mynta | 424% | 769% |
Heildareignir | 1.564.177 | 1.426.328 |
Hlutfall útlána til viðskiptavina af innlánum | 160,5% | 161,1% |
Stöðugildi í árslok | 878 | 893 |
Allar upphæðir eru í milljónum króna |
Eiginfjárhlutfall nam 25,1% í árslok 2020 samanborið við 25,8% eiginfjárhlutfall í byrjun ársins. Eiginfjárkrafa bankans lækkaði úr 20,5% í 18,8% frá árslokum 2019 til ársloka 2020, sem skýrist af lækkun á sveiflujöfnunarauka á innlendar áhættuskuldbindingar úr 1,75% í 0%.
Hreinar vaxtatekjur námu 38,1 milljarði króna samanborið við 39,7 milljarða króna 2019. Á árinu 2020 var vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna 2,5% samanborið við 2,8% árið á undan.
Hreinar þjónustutekjur Landsbankans á árinu eru 7,6 milljarðar króna sem er rúmum 580 milljónum króna lægra en á árinu 2019. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar upp á 7,5 milljarða króna samanborið við jákvæðar rekstrartekjur að upphæð 3,6 milljarða króna árið áður. Lækkunin skýrist einkum af virðisrýrnun fjáreigna um 7,2 milljarða króna. Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) hækkaði milli ára, er 47,4% árið 2020 samanborið við 42,6% árið 2019.
Rekstrarreikningur
Aukin virðisrýrnun útlána er helsta skýringin á því að hagnaður lækkar milli ára.
Hreinar vaxtatekjur námu 38,1 milljarði króna á árinu 2020 samanborið við 39,7 milljarða króna árið 2019. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna var 2,5% en var 2,8% árið áður.
Hreinar þjónustutekjur Landsbankans á árinu eru 7,6 milljarðar króna samanborið við 8,2 milljarða króna á árinu 2019.
Hrein virðisrýrnun fjáreigna var um 12 milljarðar króna samanborið við virðisrýrnun upp á 4,8 milljarða króna árið 2019. Aukna virðisrýrnun fjáreigna má einkum rekja til áhrifa heimsfaraldurs Covid-19.
Aðrar rekstrartekjur námu 4,6 milljörðum króna á árinu 2020 samanborið við 8,5 milljarða króna árið 2019, sem er lækkun um 46,1% á milli ára.
Rekstrarreikningur (m. kr.) | 2020 | 2019 | Breyting 2020 | % |
---|---|---|---|---|
Hreinar vaxtatekjur | 38.074 | 39.670 | -1.596 | -4,0% |
Hreinar þjónustutekjur | 7.638 | 8.219 | -581 | -7,1% |
Hrein virðisbreyting | -12.020 | -4.827 | -7.193 | 149,0% |
Aðrar rekstrartekjur | 4.561 | 8.455 | -3.894 | -46,1% |
Rekstrartekjur samtals | 38.253 | 51.517 | -13.364 | -25,7% |
Laun og launatengd gjöld | -14.767 | -14.458 | -309 | 2,1% |
Annar rekstrarkostnaður | -9.064 | -9.534 | 470 | -4,9% |
Skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja | -1.815 | -4.204 | 2.389 | -56,8% |
Rekstrargjöld samtals | -25.646 | -28.196 | 2.550 | -9,0% |
Hagnaður fyrir skatta | 12.607 | 23.321 | -10.714 | -45,9% |
Tekjuskattur | -2.086 | -5.086 | 3.000 | -59,0% |
Hagnaður ársins | 10.521 | 18.235 | -7.714 | -42,3% |
Rekstrargjöld ársins 2020 voru 25,6 milljarðar króna og lækka um 9% frá árinu á undan. Laun og launatengd gjöld hækka um 2,1% á milli ára og annar rekstrarkostnaður lækkar um 470 milljónir, eða um 4,9%. Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) fyrir árið reiknast 47,4%. K/T hlutfallið sýnir hlutfall rekstrarkostnaðar bankans á móti hreinum rekstrartekjum, að undanskildum virðisbreytingum fjáreigna. Stöðugildum í samstæðu bankans fækkaði um 15 á árinu 2020, úr 893 í 878.
Efnahagsreikningur
Heildareignir bankans námu 1.564 milljörðum króna í árslok 2020 og hækkuðu um 9,7% á árinu.
Eignir (m. kr.) | 31.12.2020 | 31.12.2019 | Breyting 2020 | % |
---|---|---|---|---|
Sjóður og innstæður í Seðlabanka | 67.604 | 69.824 | -2.220 | -3,2% |
Markaðsskuldabréf | 119.330 | 115.262 | 4.068 | 3,5% |
Hlutabréf | 26.808 | 30.019 | - 3.211 | -10,7% |
Útlán og kröfur á lánastofnanir | 48.073 | 47.929 | 144 | 0,3% |
Útlán og kröfur á viðskiptavini | 1.273.426 | 1.140.184 | 133.242 | 11,7% |
Aðrar eignir | 27.298 | 22.088 | 5.210 | 23,6% |
Eignir í sölumeðferð | 1.638 | 1.022 | 616 | 60,3% |
Samtals | 1.564.177 | 1.426.328 | 137.849 | 9,7% |
Helstu breytingar á eignahlið efnahags Landsbankans á árinu 2020 voru þær að útlán til viðskiptavina jukust um 11,7% á milli ára, eða um 133,2 milljarða króna. Útlán jukust bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Mikill vöxtur var í óverðtryggðum útlánum til heimila, um 153 milljarða króna, en uppgreiðslur leiða til 27 milljarða króna lækkunar verðtryggðra íbúðalána.
Heildarvanskil fyrirtækja og heimila stóðu í stað á milli ára og voru 0,8% af útlánum. Vegna tímabundinna Covid-19 úrræða og frestunar á greiðslum mælast 90 daga vanskil minni en ella. Heildareignir bankans hækkuðu um 137,8 milljarða króna á árinu.
Markaðsskuldabréfaeign bankans hækkaði um 4,1 milljarð króna á árinu. Útlán og kröfur á lánastofnanir voru 48,1 milljarður í árslok og stóðu nánast í stað á milli ára.
Skuldir og eigið fé (m kr.) | 31.12.2020 | 31.12.2019 | Breyting 2020 | % |
---|---|---|---|---|
Skuldir við lánastofnanir og Seðlabanka | 48.725 | 48.062 | 663 | 1,4% |
Innlán frá viðskiptavinum | 793.427 | 707.813 | 85.614 | 12,1% |
Lántaka | 420.178 | 373.168 | 47.010 | 12,6% |
Aðrar skuldir | 22.226 | 30.470 | -8.244 | -27,1% |
Víkjandi lántaka | 21.366 | 19.081 | 2.285 | 12,0% |
Eigið fé | 258.255 | 247.734 | 10.521 | 4,2% |
Samtals | 1.564.177 | 1.426.328 | 137.849 | 9,7% |
Helsta breyting á skuldahlið bankans var að innlán viðskiptavina jukust um 12,1% á árinu 2020, eða um 85,6 milljarða króna. Innlán frá fjármálafyrirtækjum hækkuðu um 663 milljónir króna og voru í árslok 48,7 milljarðar króna. Lántaka bankans hækkaði um 47 milljarða króna á árinu, eða 12,6%.
Eigið fé bankans var 258,3 milljarðar króna í lok árs 2020 og hækkaði um 10,5 milljarða króna á árinu. Á árinu var engin arðgreiðsla greidd til hluthafa vegna rekstrarársins 2019.
Lausafjárstaða
Lausafjárstaða bankans bæði í heild og í erlendri mynt var traust á árinu 2020 og lausafjárhlutföll bankans vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Lausafjáreignir námu 230 milljörðum króna í lok árs 2020.
Lausafjárforði (m. kr.) | 31.12.2020 | 31.12.2019 | Breyting 2020 | % |
---|---|---|---|---|
Sjóður og innstæður í Seðlabanka | 63.092 | 44.235 | 18.857 | 43% |
Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf veðhæf hjá Seðlabanka Íslands | 65.401 | 19.665 | 45.736 | 233% |
Erlend ríkisskuldabréf með 0% áhættuvog | 41.161 | 82.320 | -41.159 | -50% |
Hágæða lausafjáreignir | 169.654 | 146.220 | 23.434 | 16% |
Útlán og kröfur á fjármálafyrirtæki | 60.811 | 57.584 | 3.227 | 6% |
Heildarlausafjárforði | 230.465 | 203.804 | 26.661 | 13% |
Meginmælikvarði lausafjáráhættu til skamms tíma er lausafjárþekjuhlutfall (e. liquidity coverage ratio (LCR)) sem mælir hlutfall hágæða lausafjáreigna af nettó heildarútflæði á næstu 30 dögum miðað við tilteknar álagsaðstæður.
Heildarlausafjárþekja var 154% í lok árs 2020 en Seðlabankinn gerir kröfu um að hlutfallið sé að lágmarki 100%. Lausafjárþekja erlendra mynta var á sama tíma 424% en Seðlabankinn gerir kröfu um að það hlutfall sé að lágmarki 100%. Lausafjárþekja í íslenskum krónum var 105% í lok árs 2020 en frá og með 1. janúar 2020 gerir Seðlabankinn kröfu um að hlutfallið sé að lágmarki 30%.
Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.