Kolefnisspor

Við viljum þekkja umhverfisáhrifin frá rekstri okkar og höfum við því tekið upp mun ítarlegri útreikninga á kolefnisspori okkar en áður.

Nú leggjum við einnig sérstaka áherslu á umhverfisáhrif ofar í virðiskeðjunni, t.d. losun gróðurhúsalofttegunda vegna gagnaflutnings, framleiðslu og dreifingu rafmagns, losun vegna framleiðslu eldsneytis, ferða starfsfólks í og úr vinnu, flugferða, leigubílaferða, framleiðslu tölvubúnaðar og framvæmda við nýbyggingu bankans í miðborg Reykjavíkur.

Stærstu losunarvaldar gróðurhúsalofttegunda vegna hefðbundis reksturs bankans eru flugferðir, ferðir starfsfólks í og úr vinnu og óbein losun vegna framleiðslu tölvubúnaðar ofar í aðfangakeðju okkar. Losun vegna hefðbundins reksturs bankans lækkaði gríðarlega mikið árið 2020 og má rekja þær ástæður til Covid-19 og þeirra áhrifa sem heimsfaraldurinn hafði á daglega starfsemi. Ferðalög með flugi lögðust nánast af, en einnig hóf fólk að vinna heima í mun meiri mæli. Losun vegna flugferða innanlands minnkaði um 86% og losun vegna millilandaflugs um 84%. Mikil heimavinna stóran hluta ársins dró úr losun vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu um sem nam 50%. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá hefðbundnum rekstri minnkar um hér um bil 50% á milli ára.

Á myndinni hér að ofan má sjá sundurliðun á uppruna losunar gróðurhúsalofttegunda vegna reksturs Landsbankans. Útreikningar á kolefnisspori okkar eru í samræmi við fyrirtækjaviðmið Greenhouse Gas (GHG) Protocol. GHG Protocol setur fram alþjóðlega viðurkennda aðferðafræði sem almennt er stuðst við í útreikningum á kolefnisspori fyrirtækja.

Losun okkar vegna lána og fjárfestinga mun falla í umfang 3 þegar fram líða stundir. Við vinnum sem stendur að því að greina þessa losun, sjá nánar í umfjöllun um PCAF.

Myndin sýnir að umfang 3 er ætíð stærsti hluti losunar gróðurhúsalofttegunda vegna reksturs bankans. Sú losun er óbein, og getum við því einungis haft óbein áhrif á hana. Lítill hluti kolefnisspors hefðbundinnar starfsemi bankans er frá beinum rekstri, eða vegna raforku og hitaframleiðslu.

Aðferðalýsing GHG Protocol

Aðferðalýsing GHG Protocol skilgreinir umföng á eftirfarandi máta:

Umfang 1
Bein losun frá rekstri okkar, þ.e. losun sem á sér stað undir kennitölu og rekstri bankans.
Umfang 2
Óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu raforku og hita sem við kaupum.
Umfang 3
Óbein losun vegna aðfanga og þjónustu ofar og neðar í aðfangakeðju. Hér má t.d. nefna tölvubúnað, framleiðslu eldsneytis, steypu, flugferðir, ferðir í og úr vinnu o.fl. Losun okkar vegna lána og fjárfestinga mun falla hér undir í framtíðinni.

Myndin sýnir hlutfallslega skiptingu á uppruna losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2020. Til mikils er að vinna fyrir bankann þegar kemur að losun vegna ferða í og úr vinnu. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu tölvubúnaðar er stór hluti af óbeinu kolefnisspori bankans. Sú losun á sér stað við framleiðslu á tölvubúnaði, flutning á honum til okkar og förgun eftir að notkun lýkur. Losun vegna notkunar á tölvubúnaði er hins vegar ekki talin með hér, en fellur undir umfang 2 vegna framleiðslu á rafmagni.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna tölvubúnaðar helst nokkuð stöðug á milli ára en eykst þó lítillega. Gagnaflutningur vegna starfsemi bankans jókst mikið árið 2020. Kolefnisspor vegna gagnaflutnings jókst þó ekki mikið, en ástæða þess er minni losunarkræfni, sem mælir kolefnislosun á gagnaflutningi um ljósleiðara vegna flutnings frá þjónustuaðila sem lækkar á milli ára (sjá UFS-leiðbeiningar).

Losun vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu eru áætluð út frá fyrri ferðavenjukönnunum. Um 30% starfsfólks mætti í húsnæði bankans að staðaldri eftir að Covid-19 breiddist út. Í útreikningum er gert ráð fyrir að á fyrsta ársfjórðungi hafi allt starfsfólk mætt í húsnæði bankans.

Starfsemin kolefnisjöfnuð

Við höfum kolefnisjafnað hefðbundna starfsemi bankans fyrir árið 2020 og hlotið hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun. Starfsemin er kolefnisjöfnuð í gegnum alþjóðlega vottuð verkefni, þar sem keyptar eru vottaðar kolefniseiningar. Í samstarfi við Natural Capital Partners, höfum við fjárfest í kolefniseiningum sem hafa hlotið stranga gæðavottun, og sannarlega hafa leitt til bindingar eða komist hjá losun gróðurhúsalofttegunda. Með þessu móti náum við að vega á móti þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem óhjákvæmilega verður í rekstrinum. Við höldum engu að síður áfram að draga úr losun í okkar rekstri og hjálpa viðskiptavinum að gera hið sama.

Nýtt hús Landsbankans í miðborginni

Landsbankinn byggir nú fjölbreytt atvinnu- og verslunarhúsnæði í miðborg Reykjavíkur. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmda verktaka við húsið fellur undir óbein áhrif frá rekstri bankans. Jarðvinna við húsnæðið hófst á fyrri helmingi ársins 2019. Að sama skapi hófst vinna við uppsteypu á síðari helmingi ársins. Útreikningar vegna kolefnisspors framkvæmda miðast við bruna á eldsneyti verktaka, framleiðslu á steypu og meðhöndlun úrgangs frá framkvæmdasvæði.

Húsið verður umhverfisvottað samkvæmt alþjóðlega BREEAM-staðlinum sem snýr m.a. að umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góðri orkunýtingu og vatnssparnaði, vali á umhverfisvænum byggingarefnum og lágmörkun ýmiskonar mengunar frá byggingu. Við stefnum á  framúrskarandi (e. excellent) einkunn á hönnun og framkvæmd nýbyggingarinnar en verkefni hérlendis hafa ekki fengið hærri einkunn.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur