Víðtæk umfjöllun

Við gefum út mikið og fjölbreytt efni um efnahagsmál og fjármál í víðum skilningi. Útgáfan hefur skýra vísun í sjálfbærnistefnu okkar um að vera hreyfiafl í samfélaginu.

Fræðsla til einstaklinga

Við birtum fræðslugreinar um fjármál einstaklinga á vefnum. Í þeim fjallar starfsfólk bankans um ýmislegt sem snýr að fjárhagnum og gefur góð ráð um fjármál heimilisins. Fræðslan er fyrir fólk á öllum aldri og á hinum ýmsu tímamótum í lífinu.

Á árinu 2020 birtust meðal annars fræðslugreinarnar Hvort borgar sig að leigja eða kaupa?, Hvernig má fá góða ávöxtun í lágvaxta umhverfi, Hvað kostar að taka skammtímalán og Hvað þarf að hafa í huga við úttekt séreignarsparnaðar? Þau sem hugðu á framkvæmdir fengu góð ráð og sömuleiðis þau sem vildu kynna sér endurfjármögnun.

Greinarnar Hvernig fæ ég bankaþjónustu án þess að fara í útibú? og Nýttu þér bankaþjónustu í símanum og á netinu voru birtar í vor þegar Covid-19-heimsfaraldurinn skall á. Einnig var fjallað um efnið Hvað er til ráða þegar tekjurnar lækka skyndilega?  

Í greininni Lífið eftir vinnu var fjallað um starfslok á efri árum og fyrir þau sem yngri eru birtust meðal annars greinarnar Hvað breytist við að vera fjárráða?, Bankaþjónusta fyrir börn og unglinga og Hvernig virka námslán?

Brostið hjarta og tómt veski – varist ástarsvik á netinu

Í ástarsvikum stofna svikarar til falsks ástarsambands á netinu í þeim tilgangi að hafa fé af fórnarlömbunum. Þeir þykjast t.d. vera ungar konur í vanda eða særðir hermenn til að fá fólk til að bíta á agnið.

Fjölbreytt umfjöllun á Umræðunni

Á Umræðunni er birt fjölbreytt efni um efnahagsmál, fjármál, starfsemi bankans og samfélagstengd málefni. Efninu er miðlað með ýmsum hætti, s.s. greinum, myndböndum og í hlaðvarpi.

Á árinu 2020 voru netöryggismálin ofarlega á baugi en bankinn hefur lagt mikla áherslu á að upplýsa viðskiptavini og aðra um þennan málaflokk. Ástarsvik voru til umfjöllunar í greininni Brostið hjarta og tómt veski - varist ástarsvik á netinu sem vakti töluverða athygli. Góð ráð um netöryggi í fjarnámi og í fjarvinnu voru birt þegar stór hluti þjóðarinnar var skyndilega farinn að vinna að heiman. Einnig birtum við greinina Aukin fræðsla og umræða um netöryggismál hefur borið árangur.

Fjallað var um sjálfbær fjármál, m.a. ný sjálfbærniviðmið Evrópusambandsins, raunveruleg umhverfisáhrif banka og þátttöku Landsbankans í þróun nýs loftslagsmælis fyrir fjármálafyrirtæki. Ítarleg umfjöllun var um fjármálageirann og loftslagbreytingar. Meðal annars um það hvernig loftslagsbreytingar auka og breyta áhættu í fjármálageiranum og um beinan og óbeinan kostnað vegna loftslagsbreytinga.

Umfjöllunarefnin á Umræðunni tengjast einnig málefnum samfélagsins og samstarfsaðilum bankans. Til dæmis var fjallað um hvernig hjálpar- og styrktarfélögum gengi að safna fé í heimsfaraldri, frumkvöðlakeppnina Gulleggið og háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ fyrir yngri flokka í fótbolta. Einnig var fjallað um dagatal Landsbankans þar sem tækniframfarir og samfélagsbreytingar voru í brennidepli og sýningu á verkum Jóhannesar S. Kjarval í útibúi bankans í Austurstræti.

Ítarlega var fjallað um hagspá Hagfræðideildar líkt og undanfarin ár. Notast var við gagnvirk gröf og myndbönd til að styðja við texta spárinnar, og upptökur og glærur frá fundinum voru birtar. Hagsjá Hagfræðideildar birtist einnig reglulega á Umræðunni en það eru pistlar um stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, um fasteignamarkaðinn, verðbólguhorfur og fleira. Í Vikubyrjun birtast upplýsingar um stöðuna á mörkuðum, vikan sem leið er gerð upp og sagt er frá því sem framundan er á sviði efnahagsmála, birtingu á hagtölum, uppgjörum og fleira.

Hlaðvarp

Í hlaðvarpinu er fjallað um hlutabréfamarkaðinn, viðskiptalíf og efnahagsmál frá ýmsum hliðum og á mannamáli.

Á árinu 2020 fóru m.a þættir í loftið um Sjálfbærni og græn fjármál og 20 ára afmæli Iceland Airwaves. Í samstarfi við félagið Unga fjárfesta var einnig gefinn út þáttur þar sem fjallað var um fjárfestingar ungs fólks.

Í Markaðsumræðunni er fjallað um hlutabréfamarkaðinn og áhrif nýjustu vendinga á mörkuðum og í hagkerfinu á félög á markaði. Megin áherslan er á verðbréf og þróun markaðarins á Íslandi en einnig er fjallað um hagfræði og hagkerfið með víðari skírskotun til þátta á borð við ferðaþjónustu, fasteignamarkaðinn og fleira. Umfjölluninni er ætlað að auka áhuga og umræðu um hlutabréfamarkaði. Í ár var meðal annars fjallað um fjármálamarkaðinn og ríkisfjármál, krónuna og vaxtaákvörðun Seðlabankans auk hagspá og fasteignamarkaðinn. Einnig var rætt um áhrif Covid-19 á hlutabréfamarkaðinn og fleira.

Öflug greining á þróun efnahagsmála hjá Hagfræðideild

Hjá Hagfræðideild bankans fer fram öflugt rannsóknarstarf og greining á þróun efnahagsmála sem birtist með fjölbreyttum hætti. Deildin gegnir lykilhlutverki við að móta sýn bankans á þróun og horfur í efnahagslífinu, innanlands sem utan. Hagfræðideild annast greiningu á hagkerfinu og gefur út þjóðhags- og verðbólguspá, auk þess að sinna atvinnuvegagreiningum og greiningu á gjaldeyris- og skuldabréfamarkaði. Sérfræðingar deildarinnar voru að venju áberandi í fjölmiðlum á árinu. Gjarnan er leitað til þeirra sem álitsgjafa um efnahagsmál og vitnað í þau og þeirra greiningar í fjölmiðlum.

Hagfræðideild sendi frá sér fjölda greininga árið 2020 og stóð að viðburðum og kynningarfundum tengdum efnahagsmálum. Heimsfaraldurinn Covid-19 setti sterkan svip á starfið og fóru flestir viðburðir og stærri fundir fram með rafrænum hætti þetta árið.

Stærsti viðburðurinn á árinu var í nóvember þegar Þjóðhags- og verðbólguspá 2020-2023 var kynnt á fjölmennum rafrænum fundi. Hagspáin var einnig gefin út samhliða á Umræðunni. Um er að ræða ítarlegar greinar um ólíka þætti efnahagslífsins og efnahagshorfur á Íslandi og í heiminum öllum. Á fundinum ræddu sérfræðingar Hagfræðideildar um spána, horfur í ferðaþjónustu og á fasteignamarkaði. Auk þess hélt Joan Hoey, svæðisstjóri Evrópumála hjá The Economist Intelligent Unit, erindi um efnahagshorfur í Bretlandi og meginlandi Evrópu.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur