Finndu leiðina þína

Landsbankinn og Landsbréf, dótturfélag bankans, bjóða upp á alhliða þjónustu á sviði eignastýringar, fyrirtækjaráðgjafar og miðlunar verðbréfa, bæði hér á landi og erlendis. Stefna okkar er að veita vandaða og trausta þjónustu með sjónarmið um ábyrgar fjárfestingar að leiðarljósi.

Aukinn áhugi á hlutabréfaviðskiptum

Sífellt fleiri líta til kaupa á hlutabréfum eða í hlutabréfasjóðum til að fá góða ávöxtun. Aukinn áhugi almennings á hlutabréfakaupum sést á því að tvöfalt fleiri gerðu samninga við bankann um verðbréfaviðskipti á árinu 2020 en árið 2019 og átti áhugi á hlutafjárútboði Icelandair Group hf. í september 2020, mikinn þátt í þeirri aukningu. Við höfum komið til móts við þennan aukna áhuga, m.a. með því að gera viðskiptavinum kleift að undirrita samninga um verðbréfaviðskipti rafrænt. Í Landsbankaappinu er líka hægt að sjá stöðuna á eignasafninu, fylgjast með markaðnum og skoða upplýsingar um ávöxtun sjóða Landsbréfa.

Mikilvægt að fá vandaða ráðgjöf

„Möguleikar á ávöxtun fjármuna hafa gjörbreyst á stuttum tíma. Vextir eru í sögulegu lágmarki og ljóst að einstaklingar sem sækjast eftir ávöxtun sparifés síns leita nú í auknum mæli yfir á verðbréfamarkaðinn. Við ráðgjöf til viðskiptavina leggjum við áherslu á eignadreifingu og að skoða frekar fjárfestingu í sjóðum sem eru vaktaðir og stýrt af sérfræðingum, fremur en að kaupa einstök bréf. Við leggjum áherslu á vandaða ráðgjöf, sem er sniðin að þörfum hvers og eins, þar með talið þeirri áhættu sem viðskiptavinir eru tilbúnir til að taka.

Umframeftirspurn hjá Icelandair

Landsbankinn var annar af tveimur umsjónaraðilum hlutafjárútboðs Icelandair sem fór fram í september 2020. Undirbúningur stóð yfir í um sex mánuði og við unnum náið með stjórnendum félagsins að undirbúningi og framkvæmd. Áhugi meðal almennra fjárfesta og fagfjárfesta reyndist mjög mikill og heppnaðist útboðið afar vel. Alls söfnuðust 30 milljarðar króna af nýju hlutafé og um 11.000 nýir hluthafar bættist í eigendahóp félagsins.

Við sáum einnig um fyrsta útboð Lánasjóðs sveitarfélaga á grænum skuldabréfum sem sömuleiðis heppnaðist vel. Upphæðinni verður varið til að fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftslagsbreytingum.

Góð ávöxtun hjá Landsbréfum

Áhugi á kaupum í sjóðum hefur sömuleiðis aukist, bæði meðal almennings og hjá fagfjárfestum. Góður gangur hefur verið hjá Landsbréfum, dótturfélagi bankans, sem er sérhæft sjóða- og eignastýringarfyrirtæki. Landsbréfa reka um 40 sjóði og var ávöxtun þeirra góð. Í sjóðunum eru nú um 200 milljarðar króna en að auki eru tæplega 200 milljarðar króna í stýringu samkvæmt eignastýringarsamningum við fjölbreyttan hóp fagfjárfesta.

Ætlum að vera í fararbroddi

„Stefna okkar hjá Landsbréfum er að vera í fararbroddi á sviði eignastýringar og bjóða á hverjum tíma fjölbreytt úrval sjóða sem henta öllum tegundum fjárfesta. Við leggjum áherslu á vandaða stýringu með sjónarmið um ábyrgar fjárfestingar að leiðarljósi til hagsbóta fyrir viðskiptavini og samfélagið í heild.

Velta með erlend hlutabréf tvöfaldaðist

Landsbankinn hefur lengi boðið upp á víðtæka þjónustu á erlendum verðbréfamörkuðum en á árinu 2020 jókst umfangið verulega og velta erlendra hlutabréfa tvöfaldaðist á milli ára. Velta með bandarísk hlutabréf jókst sérstaklega en einnig með hlutabréf í fyrirtækjum sem eru skráð í öðrum Norðurlöndum, en við erum með beina aðild að kauphöllunum í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Helsinki.

Lífeyrissparnaður Landsbankans á árinu 2020

Íslenski lífeyrissjóðurinn og Lífeyrissjóður tannlækna eru með rekstrarsamning við Landsbankann en auk þess bjóðum við upp á Lífeyrisbók Landsbankans og lífeyrissparnað í erlendum verðbréfum. Ávöxtun á öllum þessum lífeyrissparnaðarleiðum var góð á árinu 2020.

Nafnávöxtun hjá Íslenska lífeyrissjóðnum var á bilinu 6,7-14,1%, samkvæmt óendurskoðuðum niðurstöðum. Nafnávöxtun samtryggingadeildar var 12,4% og nafnávöxtun Líf I, sem er stærsta séreignardeild sjóðsins, var 14,1%  á árinu 2020. Eignir Íslenska lífeyrissjóðsins voru um 117 milljarðar króna í árslok 2020 og höfðu vaxið um 17 milljarða á milli ára.

Við bættum aðgengi að upplýsingum um lífeyrissparnað með nýjum lífeyrissparnaðarvef sem er aðgengilegur af vef bankans. Í þessari nýju sjálfsafgreiðslulausn er hægt að gera samning um skyldulífeyrissparnað og/eða séreignarsparnað, gera breytingar á samningum, sækja um útgreiðslu úr lífeyrissparnaði og halda utan um yfirlit lífeyrissparnaðar yfir iðgjöld, réttindi og lífeyrisgreiðslur.

Þegar stjórnvöld veittu tímabundna heimild til úttekta á séreignarsparnaði vorum við fljót að bregðast við með því að gera umsóknarferlið vegna úttekta algjörlega rafrænt. Um 4.000 manns, sem eiga réttindi í Íslenska lífeyrissjóðnum eða nýta sér lífeyrisbók eða erlendan lífeyrissparnað, nýttu sér þetta úrræði og var meðalúttekt tæplega ein milljón króna.

Markviss stefna um ábyrgar fjárfestingar

Á árinu héldum við áfram innleiðingu á stefnu Landsbankans og Landsbréfa um ábyrgar fjárfestingar. Við höfum lagt áherslu á þá vinnu um árabil og lítum svo á að það sé mjög mikilvægt að samþætta sjálfbærni við kjarnastarfsemina. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) sem við höfum verið aðili að frá árinu 2013. Auk þess erum við aðili að meginreglum SÞ um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB), hnattrænu samkomulagi SÞ (UN Global Compact) og stofnaðili að IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Stefnan okkar tekur bæði mið af því vinnulagi sem hefur mótast undanfarin ár og einnig þeim áskorunum sem framundan eru. Næsta skref er að bæta umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS-þáttum, e. ESG) með skipulagðari hætti inn í ferli fjárfestingarákvarðana, hvort sem um óskráð eða skráð félög eða skuldabréf er að ræða. Starfshættir okkar varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum um þessi mál, þar sem neikvæðri skimun (útilokun) er aðeins beitt í undantekningartilvikum.

Horfum til ábyrgðar við ákvarðanir

Þá var áfram unnið samkvæmt þjónustusamningi Landsbankans og Landsbréfa við Reitun ehf. um kaup Landsbankans og Landsbréfa á framkvæmd UFS áhættumats (e. ESG rating) á innlendum útgefendum hlutabréfa og skuldabréfa í stýringu félaganna. Markmiðið með samningnum er að færa innleiðingu á starfsháttum ábyrgra fjárfestinga á næsta stig og halda þannig áfram þeirri vegferð við höfum markað okkur. Skýrslur Reitunar eru nú nýttar við fjárfestingarákvarðanir Landsbréfa og Íslenska lífeyrissjóðsins. Varðandi erlendar fjárfestingar er stuðst við greiningarefni frá Morningstar vegna UFS-þátta.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur