Við bættum aðgengi að upplýsingum um lífeyrissparnað með nýjum lífeyrissparnaðarvef sem er aðgengilegur af vef bankans. Í þessari nýju sjálfsafgreiðslulausn er hægt að gera samning um skyldulífeyrissparnað og/eða séreignarsparnað, gera breytingar á samningum, sækja um útgreiðslu úr lífeyrissparnaði og halda utan um yfirlit lífeyrissparnaðar yfir iðgjöld, réttindi og lífeyrisgreiðslur.
Þegar stjórnvöld veittu tímabundna heimild til úttekta á séreignarsparnaði vorum við fljót að bregðast við með því að gera umsóknarferlið vegna úttekta algjörlega rafrænt. Um 4.000 manns, sem eiga réttindi í Íslenska lífeyrissjóðnum eða nýta sér lífeyrisbók eða erlendan lífeyrissparnað, nýttu sér þetta úrræði og var meðalúttekt tæplega ein milljón króna.
Markviss stefna um ábyrgar fjárfestingar
Á árinu héldum við áfram innleiðingu á stefnu Landsbankans og Landsbréfa um ábyrgar fjárfestingar. Við höfum lagt áherslu á þá vinnu um árabil og lítum svo á að það sé mjög mikilvægt að samþætta sjálfbærni við kjarnastarfsemina. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) sem við höfum verið aðili að frá árinu 2013. Auk þess erum við aðili að meginreglum SÞ um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB), hnattrænu samkomulagi SÞ (UN Global Compact) og stofnaðili að IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Stefnan okkar tekur bæði mið af því vinnulagi sem hefur mótast undanfarin ár og einnig þeim áskorunum sem framundan eru. Næsta skref er að bæta umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS-þáttum, e. ESG) með skipulagðari hætti inn í ferli fjárfestingarákvarðana, hvort sem um óskráð eða skráð félög eða skuldabréf er að ræða. Starfshættir okkar varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum um þessi mál, þar sem neikvæðri skimun (útilokun) er aðeins beitt í undantekningartilvikum.