Ávarp formanns bankaráðs

Heimsfaraldur Covid-19 hefur haft gríðarleg efnahagsleg áhrif um allan heim. Hér á landi hafa hagrænu áhrifin verið sérstaklega mikil því harðar sóttvarnaraðgerðir sem stjórnvöld í flestum ríkjum hafa gripið til hafa bitnað harkalega á ferðaþjónustunni, einni mikilvægustu útflutningsatvinnugrein landsins.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs.

Alls fækkaði ferðamönnum um 76% á milli ára og segir sú tala meira en mörg orð um þá stöðu sem atvinnugreinin er í. Afleiðingin af þessu mikla höggi varð sú að landsframleiðslan dróst meira saman á árinu 2020 en nokkru sinni áður frá stofnun lýðveldisins og stefnir í hátt í 8% samdrátt.

Leitum lausna með viðskiptavinum

Frá því að faraldurinn skall á hefur Landsbankinn lagt mikla áherslu á að styðja við viðskiptavini sem lentu í erfiðleikum. Það gerðum við m.a. með því að bjóða tímabundna greiðslufresti, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki, og með því að veita ráðgjöf og vinna með fyrirtækjum og einstaklingum að því að leita að lausnum á vandanum. Aðstæður og staða hvers viðskiptavinar hafa þróast með ólíkum hætti og því ljóst að sama lausnin hentar ekki öllum.

Viðskiptavinir okkar eru ánægðari

Frá árinu 2017 hefur stafræn þróun verið í brennidepli hjá bankanum og fjölmargar nýjar lausnir litið dagsins ljós sem viðskiptavinir hafa verið mjög ánægðir með. Um leið hefur náðst mikill árangur við hagræðingu í rekstri bankans. Árangur undanfarinna ára er gott veganesti inn í framtíðina sem mun án efa einkennast af harðnandi samkeppni, jafnt frá innlendum sem erlendum keppinautum. Í þeim efnum mun bankinn hvergi gefa eftir og halda áfram að bjóða framúrskarandi þjónustu, hvort sem er með stafrænum lausnum eða persónulegri þjónustu og ráðgjöf. Okkur þykir vænt um að ánægja með þjónustuna hefur áfram mælst mikil, eins og sést meðal annars á því að Landsbankinn mældist efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni 2020, annað árið í röð. Við erum stolt af þeim árangri.

Ánægja viðskiptavina í fyrsta sæti

Á árinu setti bankinn sér nýja stefnu undir yfirskriftinni Landsbanki nýrra tíma. Bankaráð tók þátt í að móta stefnuna ásamt öllu starfsfólki bankans, á fundum, í vinnuhópum og með samtölum við viðskiptavini. Landsbankinn hefur þrátt fyrir ótal áskoranir og krefjandi ytri aðstæður sýnt að viðskiptavinir bankans eru ávallt í forgrunni og með skapandi hugsun og metnaðarfullum lausnum hefur bankanum tekist að styrkja forystuhlutverk sitt á markaði enn frekar. Stefnan mun gera bankanum kleift að veita enn betri þjónustu, vera leiðandi á tímum örra breytinga og vera áfram öflugasta fjármálafyrirtæki landsins. Undirstaða nýrrar stefnu er traust og við tökum okkar hlutverk í samfélaginu alvarlega. Á árinu vann bankinn einnig að sjálfbærnivegferð sinni af krafti, m.a. með því að undirbúa sína fyrstu sjálfbæru fjármálaumgjörð sem var birt í janúar 2021.

Við höfum lengi lagt áherslu á sjálfbærni, samfélagsábyrgð og ábyrgar fjárfestingar og munum halda því ótrauð áfram. Innan bankans er mikil sérfræðiþekking á sjálfbærni og hvernig fyrirtæki geta beitt sér í þessum málum. Tækifærin fyrir bankann eru mörg.

Mikil sóknarfæri að faraldri loknum

Alvarlegustu áhrif kreppunnar sem nú gengur yfir eru stóraukið atvinnuleysi. Undir lok árs 2020 voru um 26 þúsund manns atvinnulaus að fullu eða að hluta sem samsvarar um 12% atvinnuleysi, sé einnig litið til þeirra sem eru á hlutabótaleiðinni. Margir til viðbótar hafa vafalaust skráð sig í nám eða horfið af vinnumarkaði, en kysu atvinnu ef hún væri í boði. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif atvinnuleysis á fjárhag og líðan fólks og það er afar mikilvægt að okkur sem samfélagi takist sem fyrst að bæta úr þessu ástandi. Til þess erum við í góðri stöðu. Þegar ferðavilji og frelsi til ferðalaga eykst er ég sannfærð um að Ísland verður ofarlega í hugum margra sem hyggja á ferðalög. Ekki aðeins vegna okkar fallegu náttúru og þeirra víðáttu sem hér er að finna, heldur ekki síður vegna þess að á Íslandi upplifir fólk gestrisni, samkennd og öryggi.

Vel heppnuð viðbrögð stjórnvalda

Aðgerðir stjórnvalda til að milda efnahagsleg áhrif faraldursins hafa verið öflugar og ljóst að höggið hefði orðið mun þyngra ef þeirra hefði ekki notið við. Ríkisstjórn Íslands, Alþingi, Seðlabanki Íslands og heilbrigðisyfirvöld eiga hrós skilið fyrir hversu vel hefur verið brugðist við vágestinum og afleiðingum hans. Þótt eitthvað hefði mátt betur fara held ég að óhætt sé að fullyrða að Ísland sé í mun betri stöðu en flest önnur ríki.

Styður við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis

Vaxtalækkanir Seðlabankans hafa óhjákvæmilega sett þrýsting á vaxtamun bankans og lágt vaxtastig mun gera það áfram. Lækkun vaxta kemur sér hins vegar sérstaklega vel fyrir þau sem eru að kaupa sitt fyrsta heimili og gerir fólki einnig kleift að endurfjármagna eldri lán á betri kjörum. Í þessum efnum er Landsbankinn í forystu, bæði með því að bjóða mjög samkeppnishæf kjör á íbúðalánum og með því að sjá til þess að lántökuferlið sé einfalt og taki ekki óþarflega langan tíma.

Bankinn hefur skýrt samkeppnisforskot á þessum markaði og á síðasta ári jókst markaðshlutdeild hans í íbúðalánum verulega.

Ef litið er til heildarútlána vegna íbúðalána jókst hlutdeildin úr 22,0% í 26,3%. Aukningin sést vel á því að virði íbúðalánasafns bankans jókst um 126 milljarða króna á árinu eða um 32%. Greinilegt er að fólk kýs í auknum mæli að taka óverðtryggð lán því alls nam útlánaaukning óverðtryggðra íbúðalána 153 milljörðum króna en uppgreiðslur gerðu það að verkum að verðtryggð íbúðalán lækkuðu um 27 milljarða króna. Aðgangur að hagstæðum íbúðalánum fyrir einstaklinga styður við byggingariðnaðinn, frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og þar með atvinnustigið í landinu.

Hagstæð fjármögnun

Fjármögnun bankans er fjölbreytt en að stærstum hluta byggir hún á innlánum frá viðskiptavinum sem jukust um 86 milljarða króna á árinu. Erlend útgáfa skuldabréfa gekk vel og kjörin sem bankanum buðust við útgáfu í byrjun árs 2020 voru góð. Á innlendum markaði var bankinn virkur útgefandi sértryggðra skuldabréfa, en slík útgáfa er orðin mikilvægur þáttur í fjármögnun bankans, sérstaklega í ljósi vaxandi umsvifa hans á íbúðalánamarkaði.

Nú í janúar 2021 náðist mikilvægur áfangi þegar alþjóðlega lánshæfisfyrirtækið S&P Global Ratings birti lánshæfismat fyrir sértryggð skuldabréf bankans. Undirbúningur hafði staðið yfir í rúmt ár og ferlið var ítarlegt, enda hafði alþjóðlegt matsfyrirtæki ekki áður gefið út lánshæfiseinkunn fyrir sértryggð skuldabréf íslensks banka. Tilgangurinn með því að afla lánshæfismats var að gera skuldabréf bankans að enn betri kosti fyrir fjárfesta, erlenda sem innlenda.

Óvissa hefur minnkað

Afkoma Landsbankans á árinu 2020 telst vera góð, miðað við aðstæður, og til marks um traustan og góðan rekstur. Á fyrri hluta árs versnuðu efnahagshorfur mikið og við það hækkaði framlag í virðisrýrnunarsjóð umtalsvert vegna aukins vænts útlánataps. Þessar háu varúðarfærslur, sem byggðu á varfærnu mati bankans á efnahagsþróun, voru ein helsta skýringin á því að á fyrstu níu mánuðum ársins var hagnaður bankans einungis um 699 milljónir króna sem jafngildir um 0,4% arðsemi eiginfjár á ársgrundvelli. Eftir því sem leið á árið kom í ljós að neikvæð áhrif af efnahagsástandinu voru minni en áætlað var, sérstaklega fyrir einstaklinga og fyrir fyrirtæki utan ferðaþjónustu, og höfðu aðgerðir stjórnvalda og fréttir af bóluefnum mikið um það að segja. Í ljósi þessa dró aðeins úr væntu útlánatapi með samsvarandi lækkun á virðisrýrnunarsjóði bankans. Þá gekk reksturinn að öðru leyti vel, ekki síst á fjórða ársfjórðungi. Niðurstaðan er sú að hagnaður bankans á árinu 2020 var 10,5 milljarðar króna, þrátt fyrir neikvæða virðisrýrnun og varúðarfærslur sem nema um 12 milljörðum króna.

Ætlum að ná langtímamarkmiði um arðsemi

Langtímamarkmið bankans er að skila 10% arðsemi á eigið fé, að teknu tilliti til áhrifa af bankaskatti. Þetta markmið náðist ekki á árinu 2020 og ekki má reikna með að bankinn nái markmiðinu á yfirstandandi ári. Við höldum engu að síður fast við stefnu okkar og ætlum að ná settu marki innan nokkurra ára.

Áfram er mikil áhersla lögð á að halda rekstrarkostnaði í skefjum og skilvirkni í rekstri bankans hefur aukist jafnt og þétt.

Laun og tengd gjöld hækka um 309 milljónir króna á milli ára en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 470 milljónir króna. Efnahagur Landsbankans er enn sem fyrr afar traustur en eigið fé bankans í árslok 2020 var 258 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið var 25,1%, sem er hátt í alþjóðlegum samanburði.

Framkvæmdir við nýtt hús ganga vel

Framkvæmdir við nýtt hús Landsbankans við Austurhöfn í Reykjavík ganga vel og áætlað er að flytja starfsemi bankans á seinni hluta næsta árs. Mikil hagræðing mun skapast með flutningum í húsið og vinnuaðstaða starfsfólks mun taka stakkaskiptum. Byggingin mun auk þess verða miðborginni til sóma sem aðgengilegt og aðlaðandi rými fyrir almenning sem tengist nágrenninu með góðum gönguleiðum. Húsið verður umhverfisvottað samkvæmt alþjóðlega BREEAM-staðlinum sem snýr m.a. að umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góðri orkunýtingu og vatnssparnaði, vali á umhverfisvænum byggingarefnum og lágmörkun ýmiskonar mengunar meðan á byggingartíma stendur. 

Tillaga um arðgreiðslu verði lögð fyrir aðalfund

Stefna bankans er að greiða helming af hagnaði út sem arð til hluthafa og til viðbótar skuli stefnt að sérstökum arðgreiðslum til að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans.

Á aðalfundi bankans í apríl 2020, sem haldinn var í skugga fyrstu bylgju faraldursins, var ákveðið að draga til baka tillögu um arðgreiðslu og greiða ekki út arð til hluthafa vegna ársins 2019. Þetta var gert í ljósi þeirra miklu efnahagslegu óvissu sem þá ríkti. Þrátt fyrir að óvissan sé enn mikil, þá hefur hún minnkað verulega. Þá er efnahagslegur styrkur bankans mikill og reksturinn traustur. Bankaráð telur því rétt að leggja til að aðalfundur, sem haldinn verður 24. mars, samþykki að Landsbankinn greiði arð til hluthafa sem nemur 0,19 krónu á hlut vegna rekstrarársins 2020. Heildarfjárhæð arðgreiðslunnar er 4.489 milljónir króna, eða sem samsvarar 43% af hagnaði samstæðu Landsbankans á árinu 2020 og um 16% af samanlögðum hagnaði samstæðunnar á árunum 2019 og 2020. Verði tillagan samþykkt munu heildararðgreiðslur á árunum 2013-2021 nema um 146 milljörðum króna.

Ein breyting varð á bankaráði Landsbankans á árinu með afsögn Hersis Sigurgeirssonar en hann hafði tekið að sér störf fyrir Seðlabanka Íslands sem hann taldi ekki samrýmast setu í bankaráði. Fyrir hönd bankaráðs þakka ég honum fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf frá árinu 2016.

Fyrir hönd bankaráðs Landsbankans þakka ég Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra, stjórnendum og öllu starfsfólki Landsbankans fyrir afar árangursríkt og skemmtilegt samstarf á umliðnu ári.

Við þökkum hluthöfum, viðskiptavinum, eftirlitsaðilum og öðrum samstarfsaðilum fyrir samstarfið á árinu.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur