Ávarp bankastjóra

Í byrjun árs 2021 byrjuðum við að vinna eftir nýrri og metnaðarfullri stefnu með yfirskriftinni Landsbanki nýrra tíma. Landsbanki nýrra tíma er banki sem þróast í sífellu og nýtir stafræna tækni til að veita fjármálaþjónustu með mannlegri nálgun.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri.

Nýja stefnan tekur við af markmiðum sem sett voru fyrir þremur árum til að styðja við markvissar umbreytingu frá afgreiðslu yfir í sjálfsafgreiðslulausnir, en öll þau markmið náðust með glæsibrag. Áður hafði bankinn lokið ýmsum nauðsynlegum innviðaverkefnum í samvinnu við RB, fyrstur íslenskra banka.

Traustið er mikilvægast

Landsbanki nýrra tíma er byggður á traustum grunni. Tæknilegir innviðir bankans eru sterkir, bankinn er með öflugt starfsfólk og skýra stefnu sem fjallar um hvernig við veitum viðskiptavinum þjónustu þannig að gagnkvæmur ávinningur náist til lengri tíma. Þegar unnið var að mótun nýrrar stefnu kom skýrt fram í samtölum við viðskiptavini að þeir telja mikilvægast að á milli þeirra og bankans ríki gagnkvæmt traust og að rekstur bankans sé jafnframt ábyrgur og traustur. Traust er mikilvægasti þáttur starfseminnar og það var einlægur vilji starfsfólks að ný stefna byggði á þessu einfalda en sterka gildi; trausti.

Góð samvinna allra í bankanum

Á árinu 2020 reyndi mikið á þrautseigju, aðlögunarhæfni og snerpu, enda gerbreyttust aðstæður á skömmum tíma. Starfsfólk bankans sýndi enn og aftur að það er lausnamiðað og með ríka þjónustulund. Mikið mæddi á ýmsum deildum bankans, m.a. á þjónustuveri, útibúum og starfsfólki í lánavinnslu en þau fengu stuðning frá öllum deildum bankans, jafnt hvað varðar kerfislausnir, breytingar á verklagi og beina aðstoð við viðskiptavini

Það er skemmst frá því að segja að með góðri samvinnu og skipulagi tókst að sjá til þess að heimsfaraldurinn hafði engin teljandi áhrif á getu bankans til að veita þjónustu, þrátt fyrir að takmarka hafi þurft aðgang að útibúum tímabundið.

Með því að sjá til þess að við gætum veitt viðskiptavinum þjónustu, óháð staðsetningu, gátum við haldið órofinni þjónustu og tekist á við aukið álag vegna stóraukinnar eftirspurnar eftir íbúðalánum.

Kraftur í stafrænni þróun

Til að bregðast við breyttum aðstæðum settum við aukinn kraft í að rafvæða undirskriftir á umsóknir og eyðublöð og það segir sína sögu að notkun á rafrænum undirritunum þrefaldaðist á milli ára. Nýtt lánaferli var unnið í kringum stuðningslán með ríkisábyrgð sem mun ryðja brautina fyrir frekari þróun í stafrænum útlánum þó svo að tiltölulega fá fyrirtæki hafi nýtt sér lán með ríkisábyrgð. Þá var stafrænt greiðslumat gríðarlega mikilvægt þegar eftirspurn eftir íbúðalánum jókst. Stafræna greiðslumatið er dæmi um lausn sem er ekki eingöngu til hægðarauka fyrir viðskiptavini bankans heldur veitir bankanum samkeppnisforskot og þar með auknar tekjur. Við höfum nýtt tímann vel á árinu og kynnt ýmsar nýjungar sem nýtast fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við bankann og einfalda dagleg bankaviðskipti.

Enn mikil óvissa í ferðaþjónustu

Þegar faraldurinn setti daglegt líf fólks og rekstur flestra fyrirtækja úr skorðum brást bankinn fljótt við og veitti viðskiptavinum skýrar upplýsingar um hvað væri hægt að gera til að mæta áföllum og breytingum. Samkomulag sem gert var vorið 2020 á milli fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða, um frestun afborgana og vaxta, var mikilvægt til að stuðla að stöðugleika og draga úr óvissu. Á haustmánuðum, þegar almennar aðgerðir höfðu runnið sitt skeið á enda, var bankinn vel í stakk búinn til að taka á móti þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem enn glímdu við tekjumissi. Í flestum tilfellum þurftu einstaklingar ekki á frekari aðstoð að halda. Á hinn bóginn er enn mikil óvissa um framtíðarhorfur fyrirtækja í ferðaþjónustu og í nokkrum tilfellum hefur þurft að endurskipuleggja skuldir og rekstur slíkra fyrirtækja. Almennt má segja að ferðaþjónustufyrirtæki leggi mikið traust á að bóluefni muni leiða til betri tíðar seinni hluta sumars 2021, í samræmi við greiningar og væntingar stjórnvalda.

Framlag í virðisrýrnunarsjóð litar uppgjörið

Bankar bera ávallt áhættu af mögulegum útlánatöpum og eins og gefur að skilja jókst þessi áhætta þegar faraldurinn skall á. Framlag bankans í virðisrýrnunarsjóð var því aukið. Á hverjum ársfjórðungi var áhættan og þörfin fyrir framlag í virðisrýrnunarsjóð endurmetin. Stór gjaldfærsla til að mæta mögulegu útlánatapi setur mark sitt á uppgjör bankans og skýrir mestallan mun á afkomu ársins 2020 samanborið við árið 2019. Bankinn er í góðri stöðu til að mæta mögulegum áföllum en ekki hefur reynt á það í miklum mæli hvort þau áföll raungerist.

Vextir lækkaðir sex sinnum

Landsbankinn lækkaði vexti sex sinnum á árinu og bæði einstaklingar og fyrirtæki nutu góðs af þeim lækkunum.

Bankinn hefur aldrei lánað jafn mikið til íbúðakaupa og á árinu 2020 en góð kjör og góð þjónusta eru aðalástæður aukinnar markaðshlutdeildar bankans á íbúðalánamarkaði.

Sökum óvissu um efnahagsástand hafa fyrirtæki frekar haldið að sér höndum og eftirspurn eftir útlánum til fyrirtækja verið lítil. Útlán til sjávarútvegs hafa þó aukist á árinu.

Þjónustutekjur bankans voru svipaðar og á fyrra ári þrátt fyrir minni ferðalög og minni umsvif í þjónustugeiranum. Þá var góður gangur á verðbréfamörkuðum á fjórða ársfjórðungi.

Mikilvægir áfangar í fjármögnun

Fjármögnun bankans gekk vel og í febrúar voru kjörin sem bankanum bauðst þau lægstu í áratug. Í kjölfar Covid-19 jókst óvissa á mörkuðum og það hafði áhrif bæði á lánshæfi og fjármögnunarkjör og var lánshæfi bankans lækkað um eitt þrep vegna ytri aðstæðna. Kjörin sem bankanum hafa boðist hafa verið sveiflukennd. Þau bötnuðu til muna eftir því sem leið á árið en hafa þó ekki náð þeim stað sem þau voru í febrúar 2020.

Snemma árs 2021 fékk bankinn útgefið alþjóðlegt lánshæfismat á innlendum sértryggðum skuldabréfum og var það í fyrsta sinn sem íslenskur banki sækir slíkt mat. Þetta eykur söluhæfni skuldabréfanna og tryggir þau enn betur í sessi sem mikilvæga fjármögnun fyrir bankann. Í byrjun árs 2021 var sömuleiðis lokið við gerð sjálfbærs fjármögnunarramma en undirbúningur að honum hófst af krafti um mitt ár 2020. Ekki hefur verið gefið út undir þeim ramma enn, en við stefnum að útgáfu fljótlega á árinu 2021.

Stafræn stórsókn

Þjónusta bankans hefur tekið gríðarlegum breytingum á síðustu þremur árum. Miklar framfarir hafa orðið í stafrænni þjónustu og notkun heldur áfram að aukast. Á árinu 2020 lögðum við sérstaka áherslu á að bæta þjónustu við minni fyrirtæki.

Við munum halda áfram að einfalda viðskiptavinum lífið með margvíslegum hætti undir nýrri stefnu. Við nýtum þau gögn sem við eigum til að veita samfellda og góða þjónustu á skilvirkan hátt.

Með aukinni samvinnu starfsfólks í ólíkum deildum höfum við náð gríðarlega góðum árangri. Í nýrri stefnu er enn meiri áhersla lögð á samvinnu og að nýta þann mikla slagkraft sem bankinn hefur sem stærsta og öflugasta fjármálafyrirtæki landsins.

Mikil hagræðing en aukin starfsánægja

Töluvert hefur verið hagrætt í bankanum í takt við breytingu á þjónustu og á þremur árum hefur stöðugildum fækkað um 12%. Áfram er unnið eftir þeirri skýru stefnu að vera til staðar um land allt, en breyta þjónustunni smám saman í takt við þarfir samtímans. Einni afgreiðslu var lokað og unnið að því að fara í hentugra húsnæði á nokkrum stöðum. Landsbankahúsið á Selfossi var selt. Starfsemin heldur áfram í sama húsi um stund en verður svo flutt til á nýjan stað á Selfossi. Starfsánægja innan bankans hefur aldrei mælst hærri og starfsfólk er sem fyrr mjög stolt af fyrirtækinu. Það eru góð tíðindi að á sama tíma og starfsfólk hefur næstum allt unnið í fjarvinnu bróðurpart ársins, við oft á tíðum töluvert álag, skuli starfánægja og stolt aukast.

Nýr og aðgengilegri vefur

Á árinu var hannaður og settur í loftið nýr vefur fyrir bankann. Hann var einfaldaður til muna og er aðgengilegri, skýrari og léttari en sá gamli. Þar tengist öll þjónustan saman, svo sem netbankinn, appið og ýmsar sjálfsafgreiðslulausnir á borð við stafrænt greiðslumat, umsóknir og fleira. Á vefnum, eins og í allri okkar þjónustu, hugum við að sameiginlegum langtímahagsmunum viðskiptavina og bankans. Í sambland við að bjóða vörur og þjónustu fá viðskiptavinir öfluga fræðslu um fjármál og þjónustu bankans og vefurinn er hannaður út frá ströngustu kröfum um upplýsingaöryggi og persónuvernd.

Þakklát fyrir traust og trygg viðskipti

Landsbankinn er í sterkri stöðu til að mæta þeim viðsnúningi sem verður þegar veiran hefur verið kveðin í kútinn. Þrátt fyrir umtalsverðar gjaldfærslur vegna virðisbreytinga er rekstur bankans að skila jákvæðri niðurstöðu og arðsemi sem er nálægt væntingum til meðallangs tíma.

Við erum með metnaðarfull langtímamarkmið og öll starfsemi bankans er að skila góðri afkomu.

Starfsfólk bankans hefur staðið sig frábærlega allt árið og metnaðurinn og krafturinn er áþreifanlegur. Við erum þakklát viðskiptavinum fyrir traust og trygg viðskipti. Það er áfram stefna bankans að þróast, huga vel að eigin rekstri og veita viðskiptavinum úrvalsþjónustu. Við ætlum að einfalda þeim lífið - það er jú Landsbanki nýrra tíma.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur