Traust viðskiptasambönd

Þegar rekstri, áætlunum og markmiðum þúsunda viðskiptavina bankans var kollvarpað í upphafi ársins 2020 þurfti að bregðast skjótt við og aðlaga starfsemina og þjónustuna að breyttum aðstæðum. Við unnum náið með viðskiptavinum að því að takast á við efnahagslegar afleiðingar Covid-19 og gerðum margskonar breytingar til að geta áfram veitt þeim alla nauðsynlega þjónustu, þrátt fyrir samkomutakmarkanir, fjarvinnu og fleiri áskoranir.

Kannanir Gallup á fyrirtækjamarkaði styðja þá upplifun starfsfólks að vel hafi tekist til við að halda uppi kröftugu þjónustustigi við krefjandi aðstæður og mælast viðskiptavinir bankans þeir ánægðustu á bankamarkaði. Þessi ánægja viðskiptavina endurspeglast líka í því að Landsbankinn nýtur mestrar tryggðar af bönkunum, eins og hún er mæld af Gallup. Sjálfsafgreiðslulausnir Landsbankans fengu enn fremur hæstu einkunn viðskiptavina bankanna, sem er ánægjulegt, því aldrei hefur reynt meira á slíkar lausnir.

Nánar er fjallað um stafrænar lausnir í kaflanum um snjallari bankaþjónustu.

Traust viðskiptasambönd aldrei mikilvægari

„Þegar ljóst varð að margir af viðskiptavinum okkar myndu lenda í greiðsluvanda í kjölfar útbreiðslu Covid-19 lögðum við mikla áherslu á að bregðast hratt við. Öll fyrirtæki sem þess þurftu með fengu sex mánaða greiðslufrest á höfuðstóls- og vaxtagreiðslum og bankinn tók m.a. virkan þátt í að móta endanlega framsetningu og innleiðingu á úrræðum stjórnvalda í formi stuðnings- og viðbótarlána til fyrirtækja. Hátt í þrjú hundruð fyrirtæki, aðallega í ferðaþjónustu, sem eru í viðskiptum við bankann hafa nú fengið stuðnings- eða viðbótarlán. Erfiðleikarnir eru ekki að baki og enn óvíst hvenær efnahagsbatinn hefst fyrir alvöru. Á tímum sem þessum skipta traust viðskiptasambönd miklu máli.

Stafræn stórsókn

Möguleikanum á að nota rafrænar undirritanir bætt við fyrir um 70 skjalategundir
Hægt að nota Landsbankaappið til að sinna fjármálum fyrirtækja
Fyrirtæki geta sjálf stofnað innlánsreikninga og kreditkort þegar þeim hentar
Skráning í viðskipti tekur aðeins nokkrar mínútur á netinu

Öflug þjónusta sem hentar ólíkum fyrirtækjum

Fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Landsbankann eru af ýmsum stærðum og gerðum, staðsett um allt land og í ólíkum atvinnugreinum. Við leggjum kapp á að byggja upp traust langtímasamband, veita framúrskarandi þjónustu og styðja við verðmætasköpun svo fyrirtæki nái árangri. Á Fyrirtækjasviði Landsbankans og í Fyrirtækjamiðstöðinni í Borgartúni starfar öflugur hópur sérfræðinga. Í útibúum okkar á landsbyggðinni starfa sömuleiðis sérfræðingar með mikla þekkingu og tengsl við atvinnulífið í sinni heimabyggð. Markaðshlutdeild bankans meðal fyrirtækja var 30,8% í lok árs 2020, samkvæmt gögnum bankans. Þá er miðað við fyrirtæki með fjóra eða fleiri starfsmenn og sem eru með meginviðskipti sín við bankann. Hlutfallið byggist á upplýsingum um fjölda fyrirtækja samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Þjónustan sem við gátum veitt viðskiptavinum var á ýmsan hátt með öðru sniði árið 2020. Þegar ekki var hægt að hittast og fara í heimsóknir til fyrirtækja voru málin leyst í síma eða á fjarfundum. Stundum þurfti að ræða saman í gegnum dyragættir, frammi á gangi eða jafnvel úti á bílastæði. Ýmis þjónusta sem viðskiptavinir hafa kunnað vel að meta, s.s. 360° ráðgjöf og þjónustusamtöl, þurfti að mestu leyti að bíða betri tíma.

Sjálfsafgreiðsla 98%

Í öllum helstu bankaaðgerðum fyrirtækja, s.s. í innlendum og erlendum greiðslum og innheimtu reikninga, er sjálfsafgreiðsla fyrirtækja um 98%. Fyrirtækin stýra sjálf aðgangsréttindum starfsfólks í netbankanum, stofna notendur í netbanka, stofna bókhaldstengingar, aðlaga aðgangsréttindi að starfi notenda og velja viðbætur í netbankann og appið. Þau stofna líka sjálf allar gerðir bankareikninga, debetkorta og kreditkorta.

Hóflegur vöxtur í útlánum

Í ljósi ástandsins sem skapaðist snemma árs frestuðu mörg fyrirtæki eða hættu við fyrirhugaðar fjárfestingar. Þetta varð til þess að færri fyrirtæki sóttust eftir lánum hjá bankanum en ella. Fjölmörg fyrirtæki, sérstaklega tengd ferðaþjónustu, lentu í miklum erfiðleikum og urðu fyrir gríðarlegu tekjufalli.

Við gátum beitt margvíslegum úrræðum til viðbótar við aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við fyrirtæki sem lentu í þrengingum, t.d. að breyta skilmálum og fresta greiðslum. Bankinn kom eftir sem áður að fjármögnun fjölda verkefna í öllum atvinnugreinum sem skilaði sér í hóflegum vexti á útlánasafni bankans. Vöxturinn skýrist einkum af aukinni hlutdeild bankans í útlánum til sjávarútvegs. 

Eins og nærri má geta keyptu bílaleigur mun færri bíla á árinu 2020 og nam samdrátturinn tæplega 60%, samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Þetta kom fram í lægri útlánum en við héldum samt okkar stöðu á markaðnum og vel það. 

Í góðri stöðu til að styðja viðskiptavini

„Í rekstri banka er mikilvægt að fjárhagslegar undirstöður séu traustar og á það ekki síst við á óvissutímum líkt og nú. Þar stendur Landsbankinn vel að vígi, með nægt eigið fé og lausafé til að standast álagið sem fylgir óvissunni. Sterk staða bankans gerir okkur kleift að styðja áfram við okkar viðskiptavini.

Sterk staða í mannvirkjafjármögnun

Landsbankinn hefur um árabil verið leiðandi í mannvirkjafjármögnun. Við höfum verið umsvifamikil í fjármögnun nýrra íbúða og bakhjarl margra verktaka sem standa fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis. Eins hefur bankinn fjármagnað framkvæmdir við nýtt húsnæði ef búið er að tryggja sölu þess eða leigu í upphafi.

Í upphafi árs var nokkur óvissa um þróun fasteignamarkaðarins og áttu verktakar talsvert af fullbúnum íbúðum til sölu sem annaði eftirspurn eins og hún var þá. Af þeim ástæðum fóru verktakar hægt í að hefja ný verkefni.

Markaðurinn þróaðist þannig að þrátt fyrir heimsfaraldurinn var áfram mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á árinu 2020 og sala íbúða jókst miðað við fyrri ár. Veruleg vaxtalækkun á árinu gerði íbúðakaup auðveldari og að auki má nefna tilkomu hlutdeildarlána, sem auðvelda fyrstu kaupendum að koma inn á íbúðamarkaðinn. Nýbyggingarverkefni sem voru í gangi eða hófust á árinu náðu þó ekki að anna þeirri eftirspurn sem skapaðist. Á árinu 2020 var Landsbankinn sem fyrr umsvifamikill í fjármögnun á byggingu íbúðarhúsnæðis, bæði íbúða á almennum markaði og leiguíbúða. Hlutdeild bankans á þessum markaði hefur farið vaxandi á undanförnum árum.

Stór byggingaverkefni
75
verkefni
Íbúðir
2.360
íbúðir
Almennar leiguíbúðir
550
leiguíbúðir

Um síðustu áramót voru stærri verkefni á þessu sviði sem bankinn fjármagnar 75 talsins. Þar er samtals um að ræða byggingu á 2.360 íbúðum, sem munu flestar koma inn á fasteignamarkað á árunum 2021 og 2022. Af þessum íbúðum eru 550 leiguíbúðir, á borð við íbúðir á stúdentagörðum og almennar leiguíbúðir, í eigu félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Stærsti hluti íbúðanna er á höfuðborgarsvæðinu en jafnframt voru stærri verkefni á þessu sviði á Selfossi, Akranesi og í Reykjanesbæ.

Unnið að lausnum með ferðaþjónustufyrirtækjum

Heimsfaraldur Covid-19 bitnaði harðast á gistiheimilum, hótelum, veitingastöðum og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Við gátum boðið ýmis úrræði, s.s. frystingu lána og frestun greiðslna, en einnig var mikil eftispurn eftir ýmis konar ráðgjöf. Hátt í þrjú hundruð fyrirtæki, helst í ferðaþjónustu, nýttu sér einnig stuðnings- og viðbótarlán sem bankinn veitir en njóta ríkisábyrgðar.

Eftir mikla uppbyggingu í ferðaþjónustu frá árinu 2010 stóð atvinnugreinin frammi fyrir nánast algjöru tekjuhruni. Nýfjárfestingar í greininni voru því hverfandi á árinu, en þó hefur framkvæmdum verið haldið áfram við örfá verkefni sem Landsbankinn hefur stutt við og voru langt komin fyrir heimsfaraldurinn.

Við reiknum með að ferðaþjónustan taki að nýju við sér á árinu 2021 í kjölfar bólusetningar við Covid-19 og nái svo smám saman fyrri styrk. Þá er mikilvægt að ferðaþjónustufyrirtæki séu í aðstöðu til að byggja atvinnugreinina upp á nýjan leik og að því miða aðgerðir og þjónusta bankans.

Hátt í 300 viðskiptavinir, helst í ferðaþjónustu, nýttu sér einnig stuðnings- og viðbótarlán sem bankinn veitir en njóta ríkisábyrgðar

Stuðnings- og viðbótarlánin eru hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og eru ætluð smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem glíma við tekjufall af völdum Covid-19. Lánin eru með ábyrgð ríkisins en veitt af bönkunum. Hámarksfjárhæð til hvers fyrirtækis er 40 milljónir króna og skiptist upphæðin í tvö lán: stuðningslán upp á allt að 10 milljónir króna með 100% ábyrgð ríkisins og viðbótarlán upp á allt að 30 milljónir króna sem eru ætluð stærri fyrirtækjum og eru með 85% ríkisábyrgð. Ferlið var strax sjálfvirknivætt eins og kostur var og af 328 stuðnings- og viðbótarlánum sem veitt voru í gegnum Landsbankann voru 167 afgreidd alsjálfvirkt, frá umsókn að útgreiðslu, í gegnum þjónustugátt á island.is.

Öflug þjónusta við sjávarútveginn

Landsbankinn er leiðandi í fjármálaþjónustu við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, hvort sem litið er til fjölda fyrirtækja í viðskiptum eða heildarlánveitinga til greinarinnar. Markaðshlutdeild bankans meðal fyrirtækja í sjávarútvegi jókst á árinu, þegar nokkrir nýir viðskiptavinir bættust í hópinn. Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja var almennt góð og segja má að ákveðinn varnarsigur hafi unnist í erfiðum aðstæðum. Covid-19 gerði það að verkum að fyrirtækin einbeittu sér að rekstri og markaðssetningu en fjárfestingaráform voru í flestum tilfellum sett á ís. Okkar þjónusta fólst því fyrst og fremst í að aðstoða viðskiptavini við að halda sjó og styðja við fyrirtækin eftir því sem þurfti.

Leiðandi í bankaþjónustu við verslunar- og þjónustugreinar

Eftir mikla aukningu í viðskiptum við fyrirtæki í verslun og þjónustu undanfarin ár hélt bankinn leiðandi stöðu sinni í þessum atvinnugreinum á árinu 2020. Líkt og fyrri ár bættust nýir viðskiptavinir í hópinn en við unnum einnig áfram að fjölda spennandi verkefna með núverandi viðskiptavinum.

Verslun og þjónusta

Til verslunar og þjónustu telst fjölbreyttur hópur viðskiptavina á sviði smásölu, flutninga, upplýsingatækni og annarrar þjónustu.

Margt bendir til þess að sumar þessara greina hafi komist betur út úr erfiðu ástandi á árinu en búist var við og tölur úr verslunargeiranum í desember sýna t.d. aukna kortaveltu innlendra korta í verslunum frá árinu 2019.

Áhersla á betri rekstur í landbúnaði

Íslenskur landbúnaður stóð einnig frammi fyrir miklum áskorunum á árinu 2020. Þrátt fyrir það gekk rekstur almennt vel og við teljum að horfurnar fyrir greinina séu góðar. Eftir mikla uppbyggingu undangengin ár fundum við fyrir því að bændur lögðu meiri áherslu á að bæta reksturinn, fremur en að ráðast í nýfjárfestingar. Landbúnaður hefur í áratugi skipað stóran sess í viðskiptum Landsbankans og við stefnum að því að auka viðskipti við bændur og fyrirtæki þeirra á næstu misserum og árum.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur