Einföldum lífið

Stefna okkar er að einfalda viðskiptavinum lífið og eiga frumkvæði að því að bjóða þeim þjónustu sem hentar hverjum og einum. Það gerum við bæði með því að þróa einfaldar og aðgengilegar lausnir og með því að nýta gögn til að veita viðskiptavinum persónulega og faglega ráðgjöf.

Þær nýjungar sem við höfum kynnt á undanförnum árum byggja á skýrri stefnu, sem bankinn setti sér árið 2017, um að leggja áherslu á framþróun í stafrænni tækni. Stafrænu lausnirnar okkar eru mikið notaðar og kannanir sýna að viðskiptavinir eru mjög ánægðir með þær.

Um 70.000 viðskiptavinir í appinu

Frá því að Landsbankaappið var kynnt til sögunnar árið 2018 hefur notkun á því sífellt aukist en í desember 2020 nýttu um 70.000 einstaklingar appið til að sinna allri bankaþjónustu, greiða reikninga, skoða stöðuna, breyta heimildum, nálgast kortaupplýsingar og fleira.

Þreföldun á rafrænum undirritunum

Með því að byggja stafræna þjónustu á traustum tæknilegum grunni gátum við brugðist hratt við nýjum aðstæðum og fjölgað þeim möguleikum sem fólk hafði á að klára málin á netinu og í símanum.

Þetta gerðum við m.a. með því að setja aukinn kraft í hagnýtingu rafrænna undirritana. Allar umsóknir og samninga um úrræði vegna Covid-19 var hægt að undirrita með rafrænum hætti. Vegna mikillar eftirspurnar eftir íbúðalánum á liðnu ári munaði mikið um rafrænt ferli og undirritun við lántöku og endurfjármögnun. Fleiri möguleikar á rafrænum undirritunum, nýjungar í þjónustu og áhrif faraldursins urðu til þess notkun á rafrænum undirritunum þrefaldaðist á milli áranna 2019 og 2020.

Á skömmum tíma gerðum við mögulegt að nota rafræna undirritun á um 70 gerðir skjala sem notuð eru í fyrirtækjaviðskiptum og möguleikum fyrir einstaklinga hélt sömuleiðis áfram að fjölga.

Við lögðum líka áherslu á að aðstoða einstaklinga sem ekki voru vanir að nýta sér stafrænar lausnir og koma til móts við breyttar þarfir fyrirtækja sem stóðu frammi fyrir ýmsum áskorunum, m.a. að reiða sig á fjarvinnu starfsfólks.

Áfangar í stafrænni þróun

Tímalína stafrænnar vegferðar

Lausnirnar eru stafrænar alla leið

„Árið 2017 settum við fókusinn á stafræna þróun og gerðum ákveðnar lykilbreytingar til að styrkja þá vegferð. Forgangsröðun verkefna varð skýrari og allt samstarf þvert á bankann var aukið, m.a. með aukinni samvinnu milli hugbúnaðarhópa og viðskiptaeininga við mótun og þróun nýrra lausa. Jafnframt var rík áhersla lögð á að auka alla hagnýtingu gagna.

Einfaldari og aðgengilegri bankaþjónusta

Nýi Landsbankavefurinn, sem var kynntur undir lok árs 2020, miðar að því að einfalda fjármálin og gera fræðslu og ráðgjöf hærra undir höfði. Vefurinn er skýrari og léttari í vöfum en sá gamli. Allar helstu upplýsingar eru ávallt við höndina og tól og tæki, s.s. reiknivélar, voru endurhönnuð frá grunni til að auðvelda notkun enn frekar. Við hönnunina var m.a. tekið mið af notkun viðskiptavina á gamla vefnum og ítarlegri þarfagreiningu.

Við kynntum fjölmargar nýjungar í netbönkum og í Landsbankaappinu sem allar miðuðu að því að auka sjálfsafgreiðslu, aðgengi að upplýsingum og bæta alla þjónustu til viðskiptavina bankans.

Fyrirtækjafjármálin í appinu

Á árunum 2018 og 2019 var lögð áhersla á stafræna þjónustu við einstaklinga. Árið 2020 var þjónusta við fyrirtæki á hinn bóginn í brennidepli og er óhætt að segja að á árinu hafi orðið meiri breytingar á fyrirtækjaþjónustu en nokkru sinni fyrr. Aldrei hefur verið einfaldara fyrir fyrirtæki að koma í viðskipti, stofna bankareikninga og fylgjast með innheimtumálum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Frá og með desember 2020 hefur verið hægt að nota Landsbankaappið til að sinna fjármálum fyrirtækja. Í appinu geta notendur með einföldum hætti fært sig á milli reikninga mismunandi fyrirtækja, skoðað gögn, fylgst með stöðu innheimtumála og framkvæmt aðgerðir.

Stofna reikninga sjálf

Önnur mikilvæg breyting er að nú geta fyrirtæki sem eru í viðskiptum við bankann, og hafa gilda áreiðanleikakönnun, sjálf stofnað nýja bankareikninga í netbanka fyrirtækja. Áður var þessi möguleiki aðeins fyrir hendi þegar fyrirtæki voru að stofna til viðskipta við bankann. Stofnun reikninga í sjálfsafgreiðslu var kynnt í maí 2020 og varð Landsbankinn þar með fyrstur íslenskra banka til að bjóða þessa þjónustu. Fyrirtækjum og einstaklingum var einnig gert kleift að stofna orlofsreikninga í sjálfsafgreiðslu og eftir að sú lausn var kynnt til sögunnar hafa um 77% allra nýrra orlofsreikninga verið stofnaðir með þeim hætti.

Hvað ertu að borga fyrir?

Landsbankinn hefur um langt árabil verið fyrstur til að kynna nýjungar og framþróun á sviði innheimtuþjónustu. Með þeim nýjungum sem við kynntum á árinu 2020 geta fyrirtæki, félagasamtök og aðrir lögaðilar m.a. látið meiri upplýsingar fylgja með kröfunum. Forráðamenn barna kannast við að stundum getur verið erfitt að átta sig á fyrir hvaða íþróttagrein eða fyrir hvaða barn er verið að greiða þar sem það kemur ekki nægjanlega vel fram á kröfunni sem birtist í netbankanum. Nú ætti þetta vandamál að vera úr sögunni.

Aukalán í appinu til að brúa bilið

Meðal þeirra nýjunga sem við kynntum á árinu var möguleikinn á að taka Aukalán í appinu en Aukalán er óverðtryggt lán með jöfnum greiðslum sem viðskiptavinir sækja um í sjálfsafgreiðslu þegar brúa þarf bilið.

Lánaheimild í sjálfsafgreiðslu

Aukalán, yfirdráttur, hækkun á kreditkortaheimild og dreifing kreditkortareikninga byggja á sjálfvirkum lánaramma sem reiknar út lánaheimild viðskiptavina. Á árinu 2020 var opnað fyrir þann möguleika í appinu að óska eftir hærri lánaheimild en sjálfvirki lánaramminn býður upp á. Þá eru sótt frekari gögn um viðskiptavininn og ný lánsheimild sem gildir í 30 daga reiknuð út. Þetta þýðir einnig að nýir viðskiptavinir geta strax sótt um yfirdrátt og Aukalán og fengið kreditkort hjá bankanum í sjálfsafgreiðslu á nokkrum mínútum.

Sjálfvirki lánaramminn byggir eingöngu á nýtingu gagna, mannshöndin kemur hvergi nærri útreikningum eða afgreiðslu.

Stafræn stórsókn

Nánast öll þjónusta bankans er aðgengileg með stafrænum hætti. Notkun á öllum sjálfsafgreiðslulausnum bankans er mikil og hún hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Árið 2020 jókst sjálfsafgreiðsluhlutfall enn frekar, að hluta til vegna þess að takmarka þurfti afgreiðslu í útibúum vegna Covid-19.

Gjafakort Landsbankans í símann og úrið

Árið 2019 opnuðum við fyrir að stofna kreditkort í appinu. Með aukinni vefverslun kemur sér vel að geta sótt allar kortaupplýsingar í appið, afritað þær og fært yfir í greiðsluform í vefverslunum. 

Snertilausar greiðslur

Landsbankinn opnaði fyrir Apple Pay fyrstur banka í maí 2019 en árið áður höfðu Android-notendur byrjað að nýta sér sambærilega lausn þegar Kortaapp Landsbankans var kynnt. Lausnirnar eru þægilegar í notkun og gera korthöfum kleift að greiða með símanum og úrinu. Þessar lausnir urðu mikilvægur hluti af sóttvörnum þegar Covid-19 skall á og í lok árs 2020 voru snertilausar greiðslur með síma eða úri orðnar 23% af öllum greiðslum með greiðslukortum en hlutfallið var 12% í lok árs 2019. Á árinu bættist sá möguleiki við að skrá gjafakort Landsbankans í þessar lausnir og því er nú hægt að nota símann og úrið til að greiða með gjafakortinu.

Við erum til staðar

Takmarkað aðgengi að útibúum vegna Covid-19 færði samskipti við viðskiptavini í auknum mæli yfir á netið og í símann. Til að koma í veg fyrir að biðtími lengdist buðum við viðskiptavinum að panta símtal eða tíma í útibúum á þeim tíma sem hentaði best. Starfsfólk bankans um allt land tók þátt í að svara símtölum, tölvupóstum og öðrum erindum, sem dreifði álagi og lágmarkaði bið.

Viðskiptavinir voru fljótir að tileinka sér tímapantanir og pöntuðu samtals um 28.400 símtöl og tíma í útibúum og Fyrirtækjamiðstöð á árinu 2020.

Fleiri hraðbankar aðgengilegir allan sólarhringinn

Sjálfsafgreiðsla fer ekki aðeins fram í appinu og netbönkum heldur einnig í hraðbönkum og öðrum sjálfsafgreiðslutækjum. Við rekum stærsta hraðbankanet landsins og undanfarið höfum við lagt áherslu á að endurnýja tæki og bæta aðgengi að hraðbönkum og myntrúllusjálfsölum, s.s. með því að hafa þá aðgengilega allan sólarhringinn. Þá hafa ýmis ný tæki verið tekin í notkun, m.a. gjafakortasjálfsalar í útibúunum í Vesturbæ og Mjódd, en báðir eru aðgengilegir allan sólarhringinn.

Tvöfalt fleiri gerðu samning um verðbréfaviðskipti

Áhugi á verðbréfaviðskiptum stórjókst á árinu 2020, í kjölfar mikilla breytinga í vaxtaumhverfinu, og hlutfall þeirra sem gerðu samning um verðbréfaviðskipti við bankann tvöfaldaðist milli ára. Áður þurfti að koma í útibú til að undirrita slíka samninga en vegna Covid-19 lögðum við mikla áhersla á að gera viðskiptavinum kleift að undirrita samning um verðbréfaviðskipti með rafrænum hætti. Sú lausn var kynnt um mitt árið og nýttist m.a. þeim mikla fjölda sem tók þátt í hlutafjárútboði Icelandair í september 2020.

Aðrar nýjungar fólust í því að viðskiptavinir geta nú fylgst með stöðu og þróun á eignasafninu sínu í appinu og aðgengi að upplýsingum um lífeyrissparnað var bætt til muna með nýjum lífeyrissparnaðarvef.

Auðvelt að svara áreiðanleikakönnun á netinu

Samkvæmt lögum ber öllum viðskiptavinum að svara áreiðanleikakönnun sem er hluti af vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Við lögðum áherslu á að gera ferlið eins þægilegt og einfalt og mögulegt var og frá því í nóvember 2019 hafa bæði einstaklingar og fyrirtæki getað lokið áreiðanleikakönnun í netbankanum eða appinu á örfáum mínútum.

Góður árangur í baráttunni gegn netsvikum

Þrátt fyrir að nú sé meira um tilraunir til hvers kyns netsvika falla færri í gildruna. Árið 2020 fækkaði fjársvikamálum á netinu, þar sem svikin takast og tjón verður, um helming frá árinu 2019. Við teljum að góður árangur í baráttunni gegn netsvikum sé að mestu leyti fræðslu og umræðu um netöryggi að þakka. Nánar er fjallað um fræðslu um netöryggismál í kaflanum um útgáfu bankans.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur