Við erum til staðar

Sérstaða okkar felst meðal annars í því að um leið og viðskiptavinir geta nýtt sér fyrsta flokks stafrænar lausnir til að sinna nánast öllum sínum bankaviðskiptum, bjóðum við einnig upp á vandaða persónulega ráðgjöf og þjónustu um allt land.

Ánægja viðskiptavina með þjónustu bankans er mikil sem sést meðal annars í könnunum Gallup og á því að Landsbankinn mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni árið 2020 hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu, annað árið í röð. Í langflestum tilfellum nota viðskiptavinir símann eða tölvuna til að ljúka bankaerindum. Á undanförnum árum höfum við kynnt fjölda nýrra lausna sem einfalda líf viðskiptavina bankans. Markmið okkar er að veita aðgengilega þjónustu hvar og hvenær sem er og var árið 2020 engin undantekning í aukningu á framboði og notkun sjálfsafgreiðslulausna. Við fjöllum nánar um stafræna þjónustu í kaflanum um snjallari bankaþjónustu.

Mikil eftirspurn eftir íbúðalánum Landsbankans

Við lækkuðum vexti sex sinnum á árinu 2020. Vextir óverðtryggðra íbúðalána með breytilegum vöxtum lækkuðu t.a.m. úr 5,05% í 3,30%. Vextir verðtryggðra lána með breytilegum vöxtum lækkuðu úr 3,20% en voru í lok árs 1,90%.

Vaxtalækkanir og líflegur fasteignamarkaður á árinu 2020 juku mjög eftirspurn eftir íbúðalánum og munaði mikið um rafrænt ferli og rafrænar undirritunar við lántöku og endurfjármögnun. Markaðshlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði jókst úr 22,0% í 26,3% og við teljum að áhersla okkar á að veita góð kjör á íbúðalánum, þægilegt ferli og stuttur biðtími við lántökuna, ásamt aðgengi að vandaðri ráðgjöf þrátt fyrir samkomutakmarkanir, hafi valdið því að fleiri ákváðu að taka íbúðalán hjá Landsbankanum.

Sumar breytingar vegna Covid-19 verða varanlegar

„Viðskiptavinir okkar tóku takmörkunum og breytingum sem við urðum að gera á þjónustu vegna Covid-19 af miklum skilningi og yfirvegun og erum við afar þakklát fyrir það. Stafrænar lausnir og sjálfsafgreiðslutæki sönnuðu gildi sitt og við lögðum einnig mikla áherslu á að bæta enn frekar stafrænu þjónustuna til að fækka þeim tilvikum sem fólk þurfti að koma í útibúin. Engu að síður var í sumum tilvikum ekki hægt að komast hjá því að fara í útibú eða tala við bankann til að klára málin. Það reyndi því á úrlausnargetu okkar á meðan strangar fjöldatakmarkanir voru í gildi og útibú bankans voru lokuð.

Aldrei fleiri tekið íbúðalán hjá Landsbankanum 

Aldrei hafa fleiri einstaklingar og fjölskyldur tekið íbúðalán hjá bankanum en á árinu 2020 og eftirspurnin var mikil. Íbúðalánasafn bankans óx um 32% milli ára og við veittum 1.082 íbúðalán vegna kaupa á fyrstu íbúð. 

Í heildina veittum við íbúðalán fyrir 288 milljarða króna á árinu sem útskýrist af endurfjármögnun viðskiptavina á íbúðalánum sínum, ýmist til að sækja sér betri vaxtakjör eða færa sig úr verðtryggðu yfir í óverðtryggt.

Hlutfall viðskiptavina sem velja að taka óverðtryggð íbúðalán, fremur en verðtryggð, hefur aukist á undanförnum árum. Algjör umbylting varð í þessum efnum á árinu 2020 þegar um 85% þeirra sem tóku íbúðalán völdu óverðtryggð lán.

Ár vaxtalækkana og nýrra lausna

Efnahagssamdrátturinn sem við upplifum nú í kjölfar óhjákvæmilegra sóttvarnarviðbragða vegna Covid-19, bæði hér heima og erlendis, er sögulegur. Hér á Íslandi er útlit fyrir að samdráttur í landsframleiðslu árið 2020 hafi numið 8,5%, sem er mesti samdráttur á einu ári frá stofnun lýðveldisins, og áhrifin eru margvísleg.

Markaðshlutdeild 

Landsbankinn hefur verið með mestu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði sjö ár í röð og hún hefur vaxið jafnt og þétt. Gögn bankans sýna að í lok árs 2020 var markaðshlutdeildin 38,5% meðal einstaklinga 18 ára og eldri. Hún hafði hækkað um 0,6 prósentustig á milli ára og hefur aldrei mælst hærri. Á sama tíma eru viðskiptavinir ánægðir með þjónustuna og traust til bankans hefur aukist.

Fleiri fjármögnuðu kaup á notuðum bílum

Mun fleiri einstaklingar tóku bílalán hjá Landsbankanum á árinu 2020 en árið á undan. Heildarfjárhæð nýrra útlána til einstaklinga jókst um 21,6% á milli ára sem má að miklu leyti tengja fjármögnun notaðra bifreiða og er til marks um sterka stöðu bankans á þessum markaði. Alls tóku einstaklingar bílalán hjá bankanum fyrir samtals 7,5 milljarða króna á árinu 2020. 

Útlán vegna vistvænni bíla jukust um 54%

Meira en helmingur allra nýskráðra bíla á árinu 2020 voru nýorkubílar, þ.e. rafmagnsbílar, tengitvinnbílar og aðrir bílar sem ekki ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti. Þar af voru rafmagnsbílar um fjórðungar allra nýskráðra bíla. Þetta sást greinilega í útlánum bankans því á árinu 2020 lánuðum við 54% meira vegna kaupa á vistvænum bílum en á árinu 2019.

Aukakrónur

Viðskiptavinir safna Aukakrónum þegar þeir nota kreditkortið sitt hjá samstarfsaðilum Aukakróna. Endurgreiðsluafslátturinn er allt að 20%, en auk þess leggur bankinn 0,2-0,5% af allri innlendri verslun og boðgreiðslum inn í Aukakrónusöfnunina.

Aldrei hafa safnast jafn margar Aukakrónur og árinu 2020 en á árinu söfnuðu viðskiptavinir Landsbankans hvorki meira né minna en 448 milljónum Aukakróna. Aukakrónur má nota til að greiða fyrir vörur og þjónustu hjá yfir 240 samstarfsaðilum bankans, á sama hátt og íslenskar krónur. Árið 2020 greiddu viðskiptavinir fyrir vörur og þjónustu hjá samstarfsaðilum fyrir 358 milljónir Aukakróna. Þær voru langmest notaðar í desember, enda koma Aukakrónurnar sér vel í jólainnkaupunum. 

Þjónusta í takt við breyttar þarfir

Um leið og við leggjum mikla áherslu á framúrskarandi stafræna þjónustu höldum við áfram að þróa og breyta þjónustunni sem veitt er í útibúum og afgreiðslum um allt land að þörfum viðskiptavina. Það er alltaf hægt að sinna bankaþjónustu í appinu og netbankanum en við erum líka til staðar þegar viðskiptavinir þurfa ráðgjöf eða aðstoð.

Í útibúunum veitum við fjármálaráðgjöf, fyrirtækjaþjónustu og aðstoðum viðskiptavini við að tileinka sér sjálfsafgreiðslulausnir.

Vorum vel undirbúin fyrir tímapantanir

Í byrjun janúar 2020 gerðum við breytingar á útibúinu í Austurstræti. Fjármálaráðgjöf var færð þaðan yfir í Vesturbæjarútbú við Hagatorg. Áfram er hægt að fá gjaldkeraþjónustu í Austurstræti og leysa úr ýmsum erindum, t.d. virkjun rafrænna skilríkja og stofnun netbanka, og fá aðstoð og kennslu við að nýta stafrænar lausnir bankans. Samhliða opnuðum við fyrir tímapöntun í Vesturbæjarútibúinu og ætluðum okkur að opna fyrir þann möguleika í öllum útibúum bankans síðar á árinu. Við vorum því vel undirbúin þegar Covid-19 skall á og gátum tekið á móti tímapöntunum, hvort heldur sem var í útibúi eða til að fá símaráðgjöf, með litlum fyrirvara og voru 28.400 tímar pantaðir árið 2020. Þannig var hægt að aðlaga þjónustuna hratt að breyttum aðstæðum.

Á árinu hófust einnig breytingar á útibúi Landsbankans í Mjódd í Reykjavík sem m.a. fólust í að opna fyrir sólarhringsaðgang að sjálfsafgreiðslutækjum. Í mars voru sambærilegar breytingar gerðar á útibúi bankans á Selfossi en þar var aðgengi að sjálfsafgreiðslu aukið og tækjum fjölgað verulega.

Gjafakortasjálfsalar aðgengilegir allan sólarhringinn 

Gjafakort Landsbankans eru vinsæl gjöf sem bæði einstaklingar og fyrirtæki nýta sér í miklum mæli. Til að auka aðgengi að kortunum opnuðum við í desember tvo nýja gjafakortasjálfsala í útibúunum í Mjódd og Vesturbæ sem eru aðgengilegir allan sólarhringinn. Þrátt fyrir að aðgengi að útibúum hafi verið takmarkað í desember, þegar flestir kaupa gjafakort, jókst sala gjafakorta á milli ára. Þá bjóðum við líka upp á að skrá gjafakortin í Apple Pay og kortaapp bankans og er því hægt að nota gjafakortin til að versla á netinu. 

Sjálfsafgreiðslutæki um allt land 

Sjálfsafgreiðsla fer ekki aðeins fram í appinu og á netinu heldur einnig í hraðbönkum og öðrum sjálfsafgreiðslutækjum þar sem hægt er að taka út og leggja inn reiðufé, kaupa gjaldeyri, skoða stöðuna og greiða reikninga. Landsbankinn rekur stærsta útibúa- og hraðbankanet landsins með 90 hraðbanka á 63 stöðum víðs vegar um landið. Áhersla er á endurnýjun eldri hraðbanka og bætt aðgengi að hraðbönkum og myntrúllusjálfsölum, m.a. með sólarhringsopnun.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur