Við brugðumst m.a. við með því að fjölga starfsfólki sem svaraði viðskiptavinum í síma, tölvupósti og netspjalli. Á sama tíma og við þurftum að loka eða takmarka afgreiðslu í útibúum stórjókst eftirspurn eftir íbúðalánum og þá kom sér vel að hafa öflugt starfsfólk í útibúum um allt land sem gat aðstoðað viðskiptavini. Skipti þá engu hvar lántakinn eða starfsmaðurinn var staddur á landinu. Þannig gat starfsmaður á Ísafirði t.a.m. afgreitt fjölskyldu sem var að kaupa íbúð í Hafnarfirði, allt í gegnum síma eða tölvu.
Það er ljóst að margar breytingar sem urðu á þjónustunni árið 2020 eru komnar til að vera. Tímapantanir, hvort heldur sem er í útibúi eða til að fá símaráðgjöf, einfalda viðskiptavinum lífið. Tími sparast og starfsfólk fær tækifæri til að undirbúa sig betur. Við munum líka örugglega í auknum mæli veita ýmsa ráðgjöf í gegnum síma og fjarfundi.
Við finnum á viðskiptavinum okkar að þeir eru ánægðir með þjónustu bankans og bera mikið traust til okkar, og það hefur verið staðfest í könnunum. Stefna okkar er skýr - við ætlum að halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu með traustið að leiðarljósi.“